Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Turninn í Skálholti klukkulaus

17.11.2021 - 12:07
Krikjuklukkur í Skálholti teknar niður fyrir viðgerð. Fyrsta klukkan brotnaði 2002 síðan biluðu þær hver af annarri.
 Mynd: Kristján Björnsson
Kirkjuklukka frá tólftu öld mun mögulega hringja inn jólin í Skálholti í ár því kirkjuturninn er klukkulaus. Tímabær viðgerð stendur nú yfir en tuttugu ár eru frá því danska klukkan hrundi í gólfið á Skálholtshátíð og síðan hafa þær bilað ein af annarri.

„Sú fyrsta datt út. Hún hrundi á gólfið við setningu og messuupphaf á Skálholtshátíð 2002 og fór í nokkuð marga mola og ekki hægt að gera við hana. Þær hafa týnt tölunni eða hætt að hljóma með ýmsu móti, ýmsar ástæður, “ segir Kristján Björnsson vígslubiskup í Skálholti en það er verndarsjóður Skálholtsdómkirkju sem sendur fyrir söfnuninni á viðgerðinni sem er langt komin en enn vantar þó herslumuninn.

Kirkjuklukkurnar voru á sínum tíma gjöf frá Norðurlöndunum sem studdu rausnarlega við byggingu kirkjunnar. En það var danska klukkan sem brotnaði með hvelli fyrir tuttugu árum. Nú er viðgerð hafin og fyrsta skrefið er að taka niður klukkurnar. „Já ég er hérna upp í turni með klukkusmiðnum Tomasi frá Danmörku og þeir eru að fara taka niður allar klukkurnar sem eru upp í turni,“ segir Kristján.

„Þær voru lengi vel þrjár sem hringdu og svo ein sem er stærst hún hringir bara með slaghamri og það er sænska klukkan, önnur þeirra,“ segir Kristján. Og hvernig er hljómurinn búinn að vera undanfarið? „Það er mjög fallegur hljómur í öllum þessum klukkum. Ég get leyft þér að heyra einn...ding...þetta var finnska klukkan og þarna heyrðist í sænsku.“

Svo að hægt verði að hringja inn jólin í Skálholti kemur til greina að nota tvær klukkur frá 1726 eða jafnvel klukku frá tólftu öld, frá tíð Páls Jónssonar biskups. 
 

Krikjuklukkur í Skálholti teknar niður fyrir viðgerð. Fyrsta klukkan brotnaði 2002 síðan biluðu þær hver af annarri.
 Mynd: Kristján Björnsson