Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Sýrlenski tónlistarmaðurinn Souleyman handtekinn

17.11.2021 - 19:20
epa06541432 Syrian singer Omar Souleyman performs during the final day of the World of Music, Arts and Dance (WOMAD), festival in Santiago, Chile, 18 February 2018. WOMAD festival runs from 16 February to 18 February and will feature musical artists from across the world.  EPA-EFE/ALBERTO VALDES
 Mynd: EPA
Sýrlenski tónlistarmaðurinn Omar Souleyman var handtekinn í Tyrklandi í dag. Sonur hans Muhammad Souleyman greindi sýrlenskri fréttaveitu frá þessu í dag og Guardian fékk þetta staðfest frá yfirvöldum í Şanlıurfa héraði í Tyrklandi. Honum er gefið að sök að hafa tekið þátt í flokksstarfi PKK, Verkamannaflokks Kúrdistans.

Souleyman var handtekinn á grundvelli hryðjuverkalaga í Tyrklandi, þar sem litið er á PKK sem hryðjuverkasamtök. Sonur hans þvertekur fyrir að Souleyman hafi komið nálægt hryðjuverkum, hann sé engum tengdur í pólitík og skýrslan sem handtaka föður hans byggi á sé illgjörn í garð föður hans. Guardian hefur ekki tekist að ná sambandi við Souleyman sjálfan eða aðstoðarmann hans. Nágrannar Souleyman segja hann ekki hafa skilað sér heim.

Souleyman er þekktur um allan heim. Hann hefur tvisvar haldið tónleika hér á landi, á Iceland Airwaves árið 2013 og á skemmtistaðnum Húrra árið 2016. Souleyman hefur unnið með tónlistarmönnum á borð við Björk og Damon Albarn. Tónlist hans er einhvers konar blanda af miðausturlenskri þjóðlagatónlist og raftónlist. 

Umboðsmaður Souleymans sagði í samtali við AFP fréttastofuna að hann hafi verið handtekinn eftir að hafa farið inn á landsvæði í Sýrlandi sem stýrt er af YPG, sýrlenskum armi PKK. YPG hefur unnið með vestrænum hersveitum í baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki í Sýrlandi.

Tyrkneska fréttastofan iHA greindi frá því að Souleyman  hafi verið sendur í læknisskoðun áður en hann var sendur á lögreglustöð til yfirheyrslu.
Tugir þúsunda hafa verið handtekin í Tyrklandi á grundvelli hryðjuverkalaga síðustu ár. Auk flokksmanna PKK skar forsetinn Recep Tayyip Erdogan upp herör gegn fólki sem fylgdi klerkinum Fethullah Gülen að máli, en hann er sakaður um að hafa skipulagt tilraun til valdaráns árið 2016. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV