Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Segir þurfa að endurræsa stjórnarskrárbreytingaferlið

17.11.2021 - 20:46
Doktor í stjórnarháttum segir að endurræsa þurfi ferlið við stjórnarskrárbreytingar. Margt af þeim aðgerðum og breytingum sem hafi verið innleiddar í stjórnkerfi landsins frá efnahagshruni hafi gefið góða raun.

Uppgjörið: Íslensk stjórnmál eru skrambi góð! Þetta er yfirskrift fyrirlesturs sem haldinn var í gær á opnum fundi á vegum Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála. Þar var spurt hvernig sé hægt að gera upp við fortíðina eftir efnahagshrun, hvaða úrræði standi til boða og hvernig hafi til tekist á Íslandi. Sá sem flutti fyrirlesturinn er Ragnar Hjálmarsson doktor í stjórnarháttum og þar greindi hann frá þeim umbreytingum sem hægt er að beita eftir efnahagsáföll. Hann var gestur Kastljóss í kvöld. 

Hann segist vera þeirrar skoðunar að það þurfi að ná meiri sátt á milli andstæðra fylkinga um stjórnarskrárbreytingar.

„Ég held að það sé mikilvægt að við einhvern veginn endurræsum þetta ferli, en það sem líka truflar mig við þetta ferli og þá ásýnd sem er að skapast er að það hafi ekkert verið gert hérna eftir hrun. Út af því að við höfum ekki samþykkt stjórnarskránna þá hafi ekkert verið gert hérna. Mínar rannsóknir sýna fram á allt allt annað, að umbreytingarnar sem komu í kjölfar rannsóknarnefndarinnar og sérstaks saksóknara, að hér var mjög margt gert.“ segir Ragnar. 

Hann segir að árangur af stofnun rannsóknarnefnda Alþingis, nýs dómstigs og fleira hafi gefið góða raun í samanburði við önnur ríki. Hann segir að þrengingar vegna kórónuveirunnar séu af öðru meiði en áður. Undirstöðurnar atvinnulífsins séu að gefa sig núna en í efnahagshruninu hafi yfirbyggingin fokið af. Mikilvægt sé að draga lærdóm af henni í framhaldinu. 

„Íslenskt lýðræði sýnir af sér mikla seiglu og það sem er svolítið áhugavert við mínar rannsóknir er hvernig við förum að því að taka upp alla þessa ferla í þessari einangrun. Við vorum fyrsta landið sem fer inn í krísuna, höfum ekki fordæmi, okkar stjórnmálamenn, við spunnum þetta allt upp á staðnum. Við erum mjög góð í að bregðast við. Við erum spretthlauparar. Þegar næsta krísa kemur hef ég ekki áhyggjur af Íslandi. Það sem ég hef áhyggjur af er hvernig við hugsum til lengri tíma.“ segir Ragnar. 

Viðtalið við Ragnar má sjá hér að ofan sem og með því að smella hér