Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Enn kemur verðbólgan í bakið á Seðlabankanum

17.11.2021 - 15:15
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Verðbólguhorfur hafa versnað og er nú útlit fyrir að verðbólgan verði bæði þrálátari og meiri en Seðlabankinn hefur spáð undanfarið. Þrátt fyrir þau orð eru meiri líkur á að þróun verðbólgunnar á næstunni sé vanmetin frekar en ofmetin.

Fjallað er um verðbólguhorfur í Peningamálum, riti Seðlabankans, sem kom út í morgun. Það er fjórða og síðasta tölublað ársins. Þar er því spáð að verðbólga verði 4,7 prósent á þessum síðasta ársfjórðungi 2021 sem yrði þá mesta verðbólga í tæpan áratug. Jafnframt er gert ráð fyrir að verðbólgan fari ekki undir þrjú prósent fyrr en á síðasta ársfjórðungi næsta árs. Þar kveður að nokkru við nýjan tón. Í síðustu heftum Peningamála hefur alltaf verið gert ráð fyrir að verðbólga næði 2,5 prósenta verðbólgumarkmiði á ákveðnum tímapunkti. Sá tímapunktur hefur þó reyndar færst aftar með hverju nýju hefti.

Verðbólga nálægt fimm prósentum

Útlit er fyrir 4,7 prósenta verðbólgu á lokamánuðum þessa árs og 4,4 prósenta verðbólgu á upphafsmánuðum næsta árs. „Útlit er því fyrir að verðbólga haldist yfir 4% lengur en áður var spáð og verði ekki komin niður fyrir 3% fyrr en á síðasta fjórðungi næsta árs,“ segir í Peningamálum. Það er meðal annars skýrt með því að alþjóðleg verðbólga hafi aukist töluvert, svo sem vegna olíuverðshækkana og truflana í framleiðslu og framboði. Innlendir þættir hafa þó líka áhrif, svo sem kauphækkanir að ógleymdu hækkandi húsnæðisverði sem hefur verið stór hluti verðbólgunnar undanfarið. Sérstaklega er tekið fram að óvissa um verðbólgu hafi aukist og að meiri líkur séu á að hún sé vanmetin en ofmetin.

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands Mynd: rúv

Peningamál Seðlabankans eru gefin út ársfjórðungslega og þar er farið yfir stöðu efnahagsmála. Þegar litið er til mats á verðbólguþróun, eins og það hefur birst í Peningamálum, má sjá að verðbólgan hefur reynst meiri og þrálátari en spáð var eftir að hún tók að aukast samhliða covid-faraldrinum. 

Verðbólgan var undir verðbólgumarkmiðum fyrstu mánuði síðasta árs en hefur síðan aukist nokkuð jafnt og þétt - raunar svo mjög að hún hefur verið yfir fjórum prósentum allt þetta ár og þar með yfir vikmörkum Seðlabankans sem kalla á skýrslugjöf til stjórnvalda um hvort grípa þurfi til aðgerða eða ekki vegna mikillar verðbólgu.

Spárnar sem gengu ekki eftir

Seðlabankinn hefur nú í sex heftum Peningamála í röð spáð fyrir um hvenær verðbólgan kæmist aftur niður í verðbólgumarkmið. Enn sem komið er hefur engin þeirra spáa gengið eftir. 

Upp úr miðju ári í fyrra spáði Seðlabankinn því að verðbólgan yrði við 2,5 prósenta markmið um mitt þetta ár. Þá var verðbólga hins vegar um 4,3 prósent. Í lokaspá síðasta árs hafði spáin um verðbólgu í takt við verðbólgumarkmið færst aftur á síðari hluta þessa árs og í fyrstu spá nýs árs var búið að færa spána enn aftar, til lokamánaða ársins. 

Spáin um verðbólgu í takt við markmið hafði færst enn aftar í vor þegar hennar var ekki von fyrr en um mitt næsta ár. Síðsumars var miðað við að markmiðið hefði náðst síðsumars eða snemma hausts á næsta ári. Nú spáir Seðlabankinn því hins vegar að verðbólgan nálgist, en nái ekki, verðbólgumarkmiði á lokamánuðum næsta árs en aukist svo enn á ný.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Tónninn í Peningamálum hefur breyst síðustu tvö árin. Áður en áhrifa covid fór að gæta mátti þar lesa um verðbólguna: „Talið er að hún verði 2,4% á öðrum og þriðja fjórðungi þessa árs [2020] en verði komin niður í 1½% um mitt næsta ár [2021] áður en hún tekur að þokast upp í um 2% er líður á spátímann.“ 

„Horfur eru á nokkru meiri verðbólgu á næstunni en spáð var í maí,“ sagði í þriðja hefti síðasta árs, sem kom út í ágúst, og síðla árs stóð eftirfarandi: „Verðbólga á þriðja ársfjórðungi var heldur meiri en gert var ráð fyrir í ágústspá bankans sem má rekja til meiri áhrifa af gengislækkun krónunnar á verð innfluttrar vöru og minni slaka í þjóðarbúskapnum en búist var við.“ 

„Horfur eru á að verðbólga verði 3,9% á fyrsta fjórðungi þessa árs sem er heldur meira en spáð var í nóvember en hjaðni síðan tiltölulega hratt og mælist 3,3% á öðrum fjórðungi,“ sagði í fyrsta hefti Peningamála á þessu ári og því var fylgt eftir í öðru hefti með orðunum: „Verðbólga verður því töluvert þrálátari en áður var spáð en í febrúar var búist við að hún yrði við markmið í lok árs.“ „Útlit er fyrir að verðbólga verði rétt yfir 4% á seinni hluta þessa árs sem er lítillega meira en búist var við í maí,“ stóð í þriðja hefti ársins í ágúst og í lokaheftinu mátti lesa eftirfarandi orð: „Verðbólga á þriðja ársfjórðungi var lítillega meiri en gert var ráð fyrir í ágústspánni og hafa nærhorfur versnað nokkuð.“