Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Eistar boða til óvæntrar heræfingar

17.11.2021 - 14:09
epa07898351 Estonian Army combat vehicle CV90 (L) takes part in military exercise Silver Arrow in Adazi Military base, Latvia, 05 October 2019. Over 3,000 troops and 200 vehicles from 12 NATO Allies (Albania, Canada, Czech Republic, Estonia, Italy, Latvia, Lithuania, Montenegro, Poland, Slovakia, Slovenia, and Spain) are taking part in exercise Silver Arrow in Latvia. The multinational exercise provides an opportunity for forces to enhance their readiness, and train with one of four NATO battlegroups in the region.  EPA-EFE/Valda Kalnina
 Mynd: EPA
Ríkisstjórn Eistlands hefur óvænt kallað 1.700 hermenn til heræfinga nærri landamærunum við Rússland. Eistneska ríkisútvarpið greinir frá en ekki hafði verið tilkynnt um heræfinguna áður.

Gaddavírsgirðing

Eistneski herinn mun meðal annars setja upp fjörutíu kílómetra langa gaddavírsgirðingu á landamærunum. Girðingin verður reist á því svæði þar sem algengast er að fólk fari ólöglega yfir landamærin. 

Að sögn stjórnvalda er markmið æfingarinnar að prófa viðbragðshraða hersins og varir æfingin fram til 25. nóvember. „Atburðirnir í Póllandi, Lettlandi og Litháen sýna að við þurfum að efla gæslu og innviði á landamærum okkar,“ sagði Elmar Vaher, lögreglustjóri landamæralögreglu landsins.

Ástandið í Hvíta-Rússlandi

Þar vísaði Vaher til ástandsins sem komið er upp á landamærum fyrrnefndra ríkja við Hvíta-Rússland. Fjöldi flóttamanna hefur verið við landamærin síðustu daga og sakar Evrópusambandið stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi um að standa að óhefðbundinni árás með því að beina flóttamönnum yfir ytri mörk sambandsins. 

Þessi þrjú grannríki Hvíta-Rússlands hafa varað við möguleikanum á vopnuðum hernaðarátökum vegna deilunnar en Hvít-Rússar eru nánir bandamenn Rússa og rússneskar sprengjuflugvélar hafa meðal annars verið við æfingar yfir Hvíta-Rússlandi.

Þórgnýr Einar Albertsson