Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þeim fjölgar sem ekki lesa bækur

Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Þeim Íslendingum sem lesa lítið eða ekkert fjölgar en lestur er þó almennt mikill hér á landi. Karlar lásu færri bækur í ár en í fyrra en enginn munur er á lestri kvenna.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í árlegri könnun Miðstöðvar íslenskra bókmennta og sex aðila á bókmenntasviðinu. Morgunblaðið greinir frá þessu í dag.

Niðurstöður sýna jafnframt að fólk á aldrinum 18 til 24 ára las mun færri bækur en þau sem eldri eru en í fyrra var ekki marktækur munur milli aldurshópa.

Íslendingar lesa að meðaltali 2,3 bækur á mánuði sem er jafnmikið og fyrir kórónuveirufaraldurinn en meðan hann stóð sem hæst fór lesturinn upp í tvær og hálfa bók.

Tæpur helmingur svarenda heimsótti bókasafn undanfarið ár, konur oftar en karlar. Lestur hefðbundinna bóka dregst eitthvað saman milli ára en hlustun á hljóðbækur stendur í stað.

Rétt innan við sjö af hverjum tíu Íslendingum gáfu bók að gjöf undanfarið ár.