Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segja áríðandi að samkeppni ríkjanna valdi ekki ófriði

epa09584543 US President Joe Biden listens during a virtual summit with Chinese President Xi Jinping in the Roosevelt Room of the White House in Washington DC, USA, 15 November 2021.  EPA-EFE/SARAH SILBIGER / POOL
 Mynd: EPA-EFE - UPI POOL
Joe Biden Bandaríkjaforseti segir áríðandi að tryggja að samkeppni við Kína komi ekki af stað ófriði. Þetta er meðal þess sem hann sagði á stafrænum fundi hans og Xi Jinping forseta Kína sem hófst í dag.

Sá síðarnefndi kallaði Biden fornvin sinn og áréttaði að þeir yrðu að tryggja frekari samvinnu ríkjanna. Biden gagnrýndi fjarveru kollega síns við loftslagsráðstefnuna í Glasgow og fund G20 ríkjanna í Róm harðlega.

Leiðtogarnir hafa rætt tvisvar saman símleiðis frá því Biden tók við völdum í janúar en Xi harðneitar að ferðast meðan kórónuveirufaraldurinn geisar í heiminum.

AFP fréttaveitan hefur eftir Jen Psaki talskonu Hvíta hússins að fundurinn skapi tækifæri til að setja leikreglur í samskiptunum við Kína. Samskipti ríkjanna urðu afar stirð í valdatíð Donalds Trump sem hóf viðskiptastríð við Kína. 

Stjórnin í Washington segir afskaplega áríðandi að draga úr hættunni á að upp úr sjóði milli Kína og Taívan.

Vaxandi nærvera Kínverja í lofthelgi Tavían hefur skapað mikla spennu en Bandaríkjastjórn hefur lýst yfir einörðum stuðningi við sjálfstæði og fullveldi þess án þess að hóta beinum afskiptum gangi Kínverjar lengra í ásókn sinni. 

Ekki þykir þó líklegt að nokkuð verði fast í hendi eftir samtal leiðtoganna tveggja enda segir Biden sjálfur ekkert koma í staðinn fyrir fundi augliti til auglitis.