Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Mun internetið gera út af við athyglina?

Mynd: snorri rafn / snorri rafn

Mun internetið gera út af við athyglina?

16.11.2021 - 12:53

Höfundar

Sókrates óttaðist að bækur myndu gera út af við minnið en mun internetið gera út af við athyglina? Hefur veraldarvefurinn komið athyglisbrestinum kyrfilega fyrir í sálum okkar? Snorri Rafn Hallsson, pistlahöfundur Víðsjár, veltir fyrir sér möguleikum og ómöguleikum tækninnar.

Snorri Rafn Hallsson skrifar:

„Allt er texti,“ sagði einhver einhvern tímann, „það er ekkert til fyrir utan textann.“ Ég man ekki nákvæmlega hver það var sem sagði þetta og þori ekki að giska. Ég gæti eflaust gúgglað það, kynnt mér samhengið og endað ofan í Wikipedia-svartholi eða á svæsnu Youtube-fylleríi en ég má hreinlega bara ekki vera að því. Ég þarf að koma þessum texta frá mér. Þið afsakið þessi óafsakanlegu vinnubrögð, vona ég. „Allt er texti,“ sagði einhver einhvern tímann og það eru hræðileg örlög. Í það minnsta ef eitthvað er að marka Sókrates sem hélt því fram að hið ritaða mál væri eiginlega bara fyrir okkur, hækja sem við ættum ekki að treysta á. Þegar við úthýsum minninu í hið ritaða orð verðum við að páfagaukum, hermum bara eftir því sem stendur á einhverri síðu í einhverri bók. Við munum ekkert, tileinkum okkur ekkert, skiljum ekkert sjálf ef við glímum ekki við hugmyndirnar, leggjum þær á minnið og höfum greiðan aðgang að þeim öllum stundum. Vegna þess að við getum gengið að textanum vísum þurfum við ekki að nota hugann eða reyna að skilja það sem við lesum. Gleymskunni verður kyrfilega komið fyrir í sálum okkar þegar við reiðum okkur á það sem er ritað og köllum hluti ekki upp í hugann innra frá okkur, heldur með hjálp tækja og tóla. Viskunni verður skipt út fyrir eftirmynd sem hægt er að misskilja, skýr kjarni hennar máist út.

Það fór þó ekki svo að bækur yrðu okkur mannkyninu að falli. Þvert á móti. Ef ekki hefði verið fyrir lærisveininn Platón, sem hélt öllu til haga hefðum við ekki hugmynd um hvað Sókrates hafði að segja. Ef ekki væri fyrir texta væri Sókrates löngu grafinn og gleymdur. Í texta má nefnilega varðveita orð, hugmyndir, upplifanir og tilfinningar um ókomna tíð, svo hægt sé að rifja þau upp og túlka á nýjan leik. Og það er allt í lagi að misskilja svolítið, jafnvel viljandi stundum, því orð þýða ekki bara það sem þau þýða heldur tendra þau neista í taugabrautum okkar sem eru jafn misjafnar og við erum mörg. Þannig deyja orðin ekki við það að þrykkjast á pappír heldur öðlast þau nýtt líf, mörg ný líf, og þau fyllast af krafti í hvert sinn sem þau verða á vegi einhvers. Helsti gallinn við bækur, sagði Sókrates, er að þær mæta okkur með þögn, þær þurfa ávallt á stuðningi föður síns að halda, verja sig hvorki né skýra sig sjálfar. En þó svo að bækur geti aldrei sagt okkur nákvæmlega hvað þær eiga við er ekki þar með sagt að við getum ekki spurt. Og í þögninni leynast kannski svörin…

Með tilkomu og útbreiðslu bóka breyttist það hvernig við nálgumst orð og upplýsingar. Þegar sagnamenn og ræðuhaldarar hljóðnuðu og vélrænn kliðurinn í prentsmiðjunum tók yfir heiminn gafst okkur betra tóm til að hugsa í einrúmi. Hið ritaða orð setur okkur í bílstjórasætið, svo við ráðum förinni. Við getum lesið þegar okkur hentar, þar sem okkur hentar, eins stutt og eins lengi og við viljum, eins hratt og eins hægt og við kjósum. Og þögnina og andrýmið sem við getum skapað okkur við lestur, annað en við fyrirlestur, nýtum við í samræðu við sjálf okkur og aðra í huganum. Við búum til nýjar tengingar, setjum okkur í spor annarra, nóterum hjá okkur til að muna betur og getum jafnvel litið í aðrar bækur okkur til glöggvunar. Þannig hafa bækur kannski ekki gert út af við minnið eins og Sókrates óttaðist, síður en svo, en fókusinn og athyglin færðist til, yfir á fókusinn og athyglina.

Það krefst jú einbeitingar og athygli að sökkva sér ofan í bók, og allar bækur eru að vissu leyti svolítið erfiðar. Það þarf aga og þolinmæði til að lesa þær og þær krefjast þess að maður gefi sér tíma til að dvelja í þeim og fylgja framvindunni þar sem eitt leiðir af öðru. En þetta er líka viðkvæmt samband, því oft má lítið út af bregða til að maður tapi þræðinum. Örlítil hugdetta, dagdraumur eða truflun getur orðið til þess að augun líði yfir línurnar án þess að maður meðtaki nokkuð, stafirnir og orðin breytast í óskiljanleg tákn, setningarnar glata merkingu sinni og hugmyndirnar gufa upp af síðunum. Djúpt og breitt fljót viskunnar verður að pissupolli á gangstétt þar til athyglin opnar flóðgáttirnar á ný. Og þá eru því engin mörk sett hvað maður getur lært og upplifað, fundið fyrir og tileinkað sér. Þegar við lesum þá hvílum við á sama tíma algjörlega í sjálfum okkur og einhvers staðar allt annars staðar, í öðrum tíma, í öðrum heimi. Galdurinn, og þetta er galdur, felst í takmörkum bókanna. Vegna þess að þær eru óvirkar og segja bara það sem þær segja, þó þær meini ekki endilega það sem þær meina, þurfum við að vera virk, og leggja okkar af mörkum. 

En þetta veltur allt á athyglinni, athyglinni sem er af sífellt skornari skammti, athyglinni sem barist er um. Ekkert er svo fullkomið að ekki sé hægt að bæta það með tækninni. „Allt er texti,“ sagði einhver einhvern tímann, og það voru ekki hræðileg örlög fyrir mannkynið, en smám saman hefur textinn tekið á sig nýja mynd. „Allt er Stiklutexti,“ gætum við sagt í dag, http, þetta litla forskeyti fyrir framan allar vefslóðir, stendur fyrir hypertext transfer protocol, stiklutextasamskiptareglur sem eru grundvöllur veraldarvefsins. Stiklutexti er ekki bara eins og hann er, vegna þess að hann er ekki þrykktur á prent má alltaf breyta honum og uppfæra, og svo vísar hann út fyrir sig með öðrum hætti en venjulegur texti. Í stiklutexta má nefnilega koma fyrir hlekkjum á aðra stiklutexta svo í stað línulegrar framvindu verður textinn að einu broti af mörgum, einn hnútur á internetinu þar sem þræðirnir mætast. Stiklutexti er frábær, og betri en venjulegur texti, vegna þess að hann léttir af okkur þeirri byrði að þurfa að finna tengingarnar sjálf. Með engri fyrirhöfn blasir allt við. Þetta kallar aftur á nýja nálgun á orð og upplýsingar. Í stað þess að leiða okkur áfram, leiðir stiklutexti okkur annað. Það er enginn einn þráður sem þarf að fylgja heldur eru þeir óteljandi og við erum með alla visku veraldar í vasanum. 

Við erum með alla visku veraldar í vasanum, en galdurinn er svolítið horfinn. Ég finn það sjálfur hvernig ég á sífellt erfiðara með að einbeita mér í lengri tíma, dvelja á einum stað. Það er alltaf eitthvað innan handar sem nærir í mér nagdýrið sem þráir ekkert heitar en snöggsoðna umbun, eitthvað nýtt, sama hversu ómerkilegt það er. Við stiklum á stóru, förum yfir vatnið með því að stökkva á milli steinanna sem standa upp úr því, en blotnum aldrei í fæturna. Og að vissu leyti er það bara fínt. Stóraukið aðgengi að þekkingu og upplýsingum er af hinu góða. Við getum gert svo miklu meira en áður, vitað meira, lært meira, skilið meira. En þegar það er alltaf eitthvað nýtt rétt handan við hornið, alltaf eitthvað meira að skoða og það er ekkert viðnám þá splundrast athyglin, ég dvel ekki lengur samtímis í mér og á öðrum stað heldur er ég dreifður út um allt. Hvergi. Og þegar þögnin og andrýmið víkja fyrir kliðnum heyri ég enduróm af Sókratesi sem hafði áhyggjur af æskunni sem hann var hann svo dæmdur til dauða fyrir að spilla.

„Ég les ekki bækur, ég les bara það sem fólk segir á MSN,“ sagði einhver einhvern tímann og í þetta skiptið þarf ég ekki að gúggla hver það var. Við lesum kannski meira en nokkru sinni fyrr, en við lesum öðruvísi. Hefur veraldarvefurinn komið athyglisbrestinum kyrfilega fyrir í sálum okkar? 

Við lifum í veröld þar sem athygli okkar gengur kaupum og sölum og ríkir viðskiptahagsmunir felast í því að ýta okkur sífellt annað, þar sem hægt er að birta okkur fleiri auglýsingar, og selja okkur meira dótarí. Stóri misskilningurinn held ég að sé sá að það felist virkni í því að elta hlekkina áfram, að við séum við stjórnvölinn, þegar við í raun líðum bara áfram eftir brautunum sem lagðar eru fyrir okkur. Og þá fer tæknin að vera fyrir okkur. Það er auðvelt að velta ábyrgðinni yfir á tæknina sjálfa, en í raun er ekkert við stiklutextann og veraldarvefinn sem slíkan sem segir að við verðum að stikla á stóru. Alveg eins og það er ekkert við bækur sem segir að við verðum að nota þær á kostnað minnisins. Við höfum haft þúsundir ára til að þróa samband okkar við hið ritaða orð og línulegan þankagang, en bara rétt um þrjátíu ár til að venjast stiklutextanum, vefnum sem er án miðju og vísar sífellt út fyrir sig. Við erum að læra, og erum því miður enn þá svolítið bara í farþegasætinu. Til að viðhalda galdrinum í þögninni þurfum við að leggja okkur enn meira fram við það að finna hana, við þurfum að endurskapa takmarkanirnar og reisa múrana sjálf. Takmarkaleysi er um leið markleysi og þar sem allt er mögulegt skiptir ekkert máli. En þar sem ekkert skiptir máli, getum við gert það sem við viljum. Ábyrgðin er því á endanum okkar, að veita því athygli sem við viljum veita athygli, að fylgja þeim þráðum sem við viljum fylgja og gleyma ekki hver ræður för.
 

 

 

 

 

 

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Horfir þú á sjónvarpið eða horfir það á þig?

Menningarefni

Internetið sem skynfæri

Tækni og vísindi

Björk og Internetið árið 1994