„Menn eru bara fjúkandi reiðir“

16.11.2021 - 10:07
Mynd: Sölvi Andrason / RÚV
Framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Eyjafjarðar segir bændur fjúkandi reiða vegna reglugerðarbreytinga um sjálfbæra landnýtingu. Drög gera ráð fyrir að stöðva beitingu sauðfjár á landi í yfir 700 metra hæð og í meira en 30 gráðu halla.

Tæplega 90 umsagnir vegna málsins

Landgræðslulög voru samþykkt árið 2018 með það að markmiði að vernda þær auðlindir sem fólgnar eru í gróðri og tryggja sjálfbæra nýtingu lands. Hafa drög að reglugerð um leiðbeiningar verið í umsagnarferli í samráðsgátt undanfarnar vikur og borist tæplega 90 umsagnir. Að mestu frá bændum sem eru afar ósáttir. Í drögunum er meðal annars kveðið á um svæði í svokallaðri ósjálfbærri nýtingu sem henti ekki til beitar. Þannig verði óheimilt að beita sauðfé á svæði í meira en 700 metra hæð eða í 30 gráðu halla. Sigurgeir Hreinsson, framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Eyjafjarðar segir þessar kvaðir geta komið sér afar illa.  

Mældu svæði í Eyjafirði

„Við tókum bara akkúrat brekkuna hérna fyrir ofan okkur í Kaupangssveitarfjalli ofan við Svertingsstaði og létum mæla hallann í henni og þar, bara rétt fyrir ofan fjallagirðinguna í 200 metra hæð þar er hallinn orðinn 23 gráður og 100 metrum ofar er hann kominn í 30,“ segir Sigurgeir. 

„Það er bara bannað“

Í drögunum eru líka reglur sem snúa að dreifingu áburðar á tún. „Það má ekki dreifa búfjáráburði 50 metra frá rennandi vatni og ekki tilbúnum áburð 5-10 metra frá og ekki neitt tekið tillit til þess hvernig honum er dreift eða hvort það er einhver hætta á að hann skolist út eða ekki.“

Þannig að það mætti ekki dreifa skít í minna en 50 metra fjarlægð frá vötnum? 

„Nei það er bara bannað.“

Landvernd fagnar drögunum

Þó flestar umsagnir vegna málsins komi frá bændum fagnar Landvernd drögnum. Í umsögn frá samtökunum er því fagnað að nú sé komið tæki til að setja hömlur á ósjálfbæra beit. Reglugerð auðveldi vinnu við að endurheimta gróður og bæta landnýtingu. Því eru bændur ósammála. „Menn eru bara fjúkandi reiðir og finnst farið af stað með marga hluti án þess að það sé búið að rannsaka eða vita hvaða afleiðingar eru og með veikan faglegan bakgrunn.“