Meðalhraðamæling í gagnið - Þingvallavegur næstur

16.11.2021 - 11:08
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Meðalhraðamyndavélar verða teknar í gagnið á Grindavíkurvegi og í Norðfjarðjargöngum í hádeginu. Til greina kemur að setja slíkar vélar upp í fleiri jarðgöngum og í undirbúningi er að hefja slíka hraðamælingu á Þingvallavegi.

 

Auður Þóra Árnadóttir, forstöðumaður umferðardeildar Vegagerðarinnar, segir þetta langþráð tímamót. „Þetta virkar þannig að það er tekin mynd af ökumanni þegar hann ekur inn á vegarkafla og svo aftur þegar hann ekur út af kaflanum. Tíminn sem það tekur ökumanninn að aka á milli myndavélanna er mældur og vegalengdin er þekkt og þá er hægt að reikna út meðalhraða hans á kaflanum.

Og hverjir eru nú kostirnir við þessa aðferð?

Hefðbundið punkthraðaeftirlit virkar þannig að þá er bara hraðinn mældur þegar ökumaður ekur fram hjá myndavélinni. Þá er hætta á að menn hægi á sér við myndavélina. Þetta verður til þess að menn aka á jöfnum hraða eftir kaflanum. Alvarlega slösuðum og látnum á slysaköflum fækkar meira þar sem er sjálfvirkt meðalhraðaeftirlit en hefðbundið punkthraðaeftirlit. Og áhrifasvæði eftirlitsins nær lengra og út fyrir vegarkaflann.

Og nú er búið að kveikja á þessu í Norðfjarðargöngum og á Grindavíkurvegi en mætti ekki gera þetta á fleiri stöðum?

Jú, það eru margir kaflar sem við erum með í sigtinu. Það er þegar byrjað að undirbúa uppsetningu svona eftirlits á Þingvallavegi. En síðan koma öll jarðgöng til greina. Svo eru kaflar sem við höfum verið að skoða eins og hringvegur fyrir austan Selfoss, Akrafjallsvegur, Ólafsfjarðarvegur og hringvegur frá Skaftártunguvegi að Hrífunesvegi. En þetta kemur til greina á mörgum vegarköflum,“ segir Auður Þóra Árnadóttir, forstöðumaður umferðardeildar Vegagerðarinnar.