Kveikti í með því að leggja taustykki yfir brauðrist

16.11.2021 - 15:45
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Héraðsdómur Norðurlands eystra dæmdi í síðustu viku Kristófer Örn Sigurðsson í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir að kveikja í gömlu húsi í Sandgerðisbót á Akureyri í október fyrir tveimur árum. Tveir voru fluttir á slysadeild eftir brunann. Eldurinn kviknaði eftir að Kristófer lagði viskustykki yfir ristavél sem var í gangi og gekk út.

Í húsnæðinu var rekið búsetuúrræði á vegum bæjarins. Karl og kona sem bjuggu á efri hæð hússins hringdu á Neyðarlínuna þegar þau urðu vör við eldinn. Þeim tókst báðum að komast út.

Kristófer bjó á neðri hæðinni og var handtekinn um nóttina. Hann neitaði sök og fyrir dómi kvaðst hann ekki vilja tjá sig um efni ákærunnar.  Hann sagðist hafa búið í húsinu í um eitt ár, þar hefði margoft verið brotist inn hjá honum og hann ekkert getað átt í friði.

Maðurinn sem bjó á efri hæðinni sagði Kristófer hafa kveikt í ruslatunnu fyrir utan húsið tveimur til þremur vikum áður. Og sagði hann kannski hafa bara ákveðið að kveikja í húsinu af því að það væri rusl. Konan sem bjó á efri hæðinni sagðist hafa verið dauðhrædd við Kristófer og ekki þorað að gista í risi hússins af ótta við hann. 

Geðlæknir mat Kristófer sakhæfan þótt hann hefði líklega verið í geðrofsástandi þegar eldurinn kviknaði.  Læknirinn taldi ólíklegt að refsing í formi fangelsisrefsingar gæti borið árangur heldur ætti  leggja hann inn á réttargeðdeild Landspítala. Ef ekki yrði gripið til alvarlegs inngrips væri mjög líklegt að eitthvað svipað kynni að endurtaka sig.

Fyrir dómi sagði geðlæknirinn hins vegar að Kristófer ætti að geta fengið fullnægjandi þjónustu í fangelsum enda kæmu veikindi hans fyrst og fremst fram við neyslu

Héraðsdómur segir í niðurstöðu sinni að Kristófer hafi verið rólegur við aðalmeðferð málsins og ekki leiki nokkur vafi á því að hann átti sig almennt á afleiðingum gerða sinna. Var það því niðurstaða dómsins að dæma hann í tveggja og hálfs árs fangelsi. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV