Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Vel smíðað en krefjandi meistarastykki

Mynd: Lesstofan / RÚV

Vel smíðað en krefjandi meistarastykki

15.11.2021 - 13:47

Höfundar

Fyrsta skáldsaga Guðna Elíssonar, Ljósgildran, er eins og krossgáta fyrir bókmenntaáhugamenn og alla þá sem fylgjast með fréttum og íslensku samfélagi af einhverju viti, segir Gréta Sigríður Einarsdóttir gagnrýnandi.

Gréta Sigríður Einarsdóttir skrifar:

Stór hluti ánægjunnar af innanhússbröndurum er ekki grínið sjálft, heldur upphafningin sem fólgin er í því að vera einn af fáum sem skilja leyniskilaboðin. Maðurinn er hjarðvera og er eðlislægt að gera sitt besta til að vera hluti af hópnum, enda boðar útilokun ekkert annað en dauða. Aðgengi er lykilorð í félagslegum fræðum, hvort sem um er að ræða aðgengi að kjötkötlum, félagslegum hópum, eða byggingum. Það kitlar hégómagirnd mannsins að skilja það sem látið er eftir ósagt, sendir merki til heilans um að þú sért með í leiknum, umkringdur hópi og þar af leiðandi öryggi.

Ljósgildran er fyrsta skáldsaga Guðna Elíssonar. Hann er þó enginn nýgræðingur í heimi bókmennta en hefur kennt fagið í Háskóla Íslands um árabil. Þessi frumraun vakti nokkra athygli fyrir þær sakir en ekki síður vegna þess að prentgripurinn er eitt stærsta flykki sem boðið er til sölu fyrir þessi jól, heilar 800 blaðsíður að lengd, stórvirki í orðsins fyllstu merkingu. Reyndar er öll ytri umgjörð bókarinnar glæsileg. Það er eitthvað nautnalegt við daufblátt glitið á kápunni og rjómalitaðan pappírinn í bland við svartar síður. 

Skáldsagan fjallar um tvo afar ólíka rithöfunda, og valdamennina sem beita þeim fyrir sig í pólitískri refskák á tímum heimsfaraldurs. Frásögnin teygir sig upp og niður valdastigana og varpar ljósi á baktjaldamakk og reykfyllt bakherbergi íslensks menningar- og stjórnmálalífs. Aðalpersónurnar eru misvaldamikil peð, og jafnvel þeir sem sitja í veigamiklum embættum eru á valdi örlaganna. En eftir lesturinn verður ljóst að einna helst er það almenningur sem hafður er að spotti. Sagan fjallar um rithöfunda, skáldskap og menningarlífið en í skáldsögu Guðna kemur í ljós að elíta menningarinnar er ekki í neinum fötum frekar en keisarinn og fáránleikinn er dreginn fram í smágerðum bókmenntaheimi í landi þar sem allir eru skáld. 

Þegar skáldsögur fjalla um íslenskan samtíma er vinsæll samkvæmisleikur að spá og spekúlera í hvaða þræðir eru byggðir á hvaða persónum og atburðum. Á köflum er þetta eins og að lesa safaríkt slúður. Ofan á vísanir í framámenn í samfélaginu er svo í bókinni að finna ógrynni af vísunum bæði í heimsbókmenntirnar og bókmenntaarf Íslendinga. Fyrir þau sem þekkja til í íslensku menningarlífi er skemmtilegt að lesa textann sem hnýtir óhikað í helstu persónur og leikendur, og þau sem eru vel lesin munu ugglaust hafa gaman af textanum sem byggir á öllu því helsta sem vestræn menning hefur fram að færa. Svona texta er best að lesa hægt, jafnvel taka hlé öðru hvoru til að fletta nöfnum og orðum upp á netinu. Þegar lesið er á milli línanna kemur ýmislegt í ljós og Guðni er óhræddur við að beina háðskri sýn á allt sem fyrir honum verður. Sumir fá á baukinn í beinum orðum  - bókmenntafræðingum og menningarvitum Ríkisútvarpsins er hent fyrir lestina - á meðan önnur skot eru óbeinni. Persónur sem eiga sér misskýrar fyrirmyndir eru til að mynda ekki alltaf sýndar í blíðu ljósi.  

Frásagnarstíll bókarinnar fer út um víðan völl. Hér má finna ljóð í frjálsu formi og rapptexta en líka niðurnegldar sonnettur, brot úr bókum skrifuðum af persónum bókarinnar og ólíkar raddir í mismunandi uppsettum köflum. Tilvitnanir í heimsbókmenntirnar eru fjölmargar og má finna í upphafi hvers kafla. Sagan sækir í stíl rökkurbókmennta og glæpasagna en líka í fáránleikann og jafnvel draugasögur. Þó fjallað sé um samtímann koma ævintýraverur fyrir og yfirnáttúruleg öfl eru líka á sveimi. Ekki er allt sem sýnist í Ljósgildrunni og á köflum þróast ástandið út í hreinræktaðar draugasögur. Þessir súrrealísku hlutar sögunnar setja ævintýralegan brag á hana en hún er þrátt fyrir allt kyrfilega með fæturna í raunveruleikanum.

Það er stórskemmtilegt að lesa textann og á köflum nær hann virkilega góðu flugi. Bókaunnendur kætast við að sjá Pollýönnu, Önnu Kareninu og George og Lenny skjóta upp kollinum. Bókasafnarinn og menningarvitinn sem stelst til að lesa ástarsögur og vangaveltur um sálma og sonnettur vekja sömuleiðis fögnuð þeirra. Það gat þó tekið á taugarnar að lesa texta sem er svo þéttriðinn vísunum og vísbendingum. Það er gaman að leysa þrautir en 800 blaðsíðna krossgáta krefst ansi mikils af lesendum. Söguþráðurinn sem drífur bókina áfram týnist stundum í útúrdúrunum svo framvindan minnti stundum meira á laustengda pistla um hitt og þetta.

Hún er heldur drungaleg, myndin sem dregin er upp af valdamönnum og forkólfum bókmenntaheimsins. Þeir, og ég segi þeir því flestir sem drífa söguna áfram eru karlar, keppast um að kasta sandi í augu almennings en eru sjálfir forugir upp fyrir haus í sandkassaleiknum, reknir áfram af óöryggi og annarlegum hvötum. Annars fór í taugarnar á mér hvað konurnar í bókinni fá lítinn tíma í sviðsljósinu. Þær eru annað hvort innblástur eða óskiljanlegar. Ungur rithöfundur sem notið hefur vinsælda fyrir smásagnasafn er aldrei kölluð annað en stelpufíflið eða stelpuandskotinn en það grín varð fljótt álíka þreytt og einræður skáldsins á barnum og drykkjuraus um punginn á skáldum. Á öðrum stað eru eiginkona og dóttir í hlutverki baktjalda fyrir sálarlíf mannsins sem er í aðalhlutverki. Tónninn í þessu öllu saman er glettinn og það er ekki eins og karlarnir fái hetjumeðferð en þeir fá óneitanlega mestallt plássið.

Ljósgildran er eins og krossgáta fyrir bókmenntaáhugamenn og alla þá sem fylgjast með fréttum og íslensku samfélagi af einhverju viti. Í ofanálag er strúktúrinn úthugsaður fram í minnstu smáatriði og stærðfræðilegir leikir með síðufjölda og hlutföll stórra atburða af söguþræði enn eitt páskaeggið. Þessa bók er hægt að lesa aftur og aftur og finna ný smáatriði og nýjar fléttur við hvern lestur. Hún er samt líka smá óþolandi á köflum því hugmyndafræðilegar skylmingar við lesandann verða þreytandi til lengdar. Einn kafli ber titilinn Karybdís, Skylla og kanínurnar eða undanþágupésinn, reglan um sjötíu og tvo og Faraday-búrið. Það er bara of mikið. 

Það er þetta með einkagrínið. Í þessu tilviki er það ekkert svo mikið einka, flestir hafa aðgengi að heimsbókmenntunum og umfjöllun um íslenskt samfélag en að lesa Ljósgildruna er á stundum eins og að taka inngöngupróf. Það getur verið skemmtilegt að spreyta sig á slíku en til lengdar verður þreytandi að vera krafin um staðfestingu á athygli og þekkingu. Þegar lestrinum var lokið var ég ekki viss um hvort ég kærði mig enn um inngöngu.

Bókin gengur sundur og saman í háðskum árásum á samtímann, er á köflum leiftrandi vel skrifuð og stórskemmtilegt að vinda ofan af vísunum í bókmenntir og heimspeki. Háðið getur þó orðið þreytandi því lengur sem það dynur á manni og þegar orrahríðinni er lokið er ekki mikið sem stendur eftir. Bókin er vel smíðað meistarastykki en það er áskorun að njóta hennar. 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Ljósgildran best í skammdeginu

Bókmenntir

Margir prófessorar sem hafa skrifað mjög vondar bækur