Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Uppáhaldssonur“ Gaddafis býður sig fram til forseta

15.11.2021 - 01:43
epa09581837 A handout photo made available by the Libyan High National Commission Facebook Page on 14 November 2021 shows Saif al-Islam Gaddafi (L), son of the former Libyan leader Muammar Gaddafi registering to run in upcoming presidential elections, in city of Sebha, south of Tripoli, Libya. Presidential elections in Libya are planned for 24 December 2021.  EPA-EFE/LIBYAN ELECTORAL COMMISSION HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
Saif al-Islam al-Gaddafi (lengst t.v.), sonur Muammars Gaddafis, skráir sig sem frambjóðanda á skrifstofu yfirkjörstjórnar í Líbíu Mynd: EPA-EFE - LIBYAN ELECTORAL COMMISSION
Saif al-Islam Gaddafi, sonur Muammars Gaddafis, fyrrverandi Líbíuforseta, hefur tilkynnt framboð sitt til forseta í kosningum sem á að halda í Líbíu 24. desember næstkomandi. Yfirkjörnefnd Líbíu staðfesti þetta í tilkynningu sem hún sendi frá sér á sunnudag.

Saif er er einn þekktasti frambjóðandinn sem fram hefur komið til þessa og þeir verða varla miklu þekktari á hans heimaslóðum. Hann er sagður hafa verið uppáhaldssonur föður síns, sem felldur var af uppreisnarmönnum haustið 2011 í blóðugu borgarastríði þar sem herþotur Atlantshafsbandalagsins lögðu uppreisnarmönnum lið í trássi við ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um flugbann yfir landinu.

Dæmdur til dauða og eftirlýstur af Alþjóða glæpadómstólnum

Það gæti reynst Saif Gaddafi fjötur um fót í kosningunum, að dómstóll í Trípólí dæmdi hann til dauða fyrir stríðsglæpi árið 2015. Og þótt hann hafi verið náðaður nokkru síðar er hann enn eftirlýstur af Alþjóða glæpadómstólnum fyrir meinta glæpi hans gegn mannkyni.

Samkvæmt frétt Al Jazeera er Gaddafi ekki talinn ýkja sigurstranglegur í kosningunum, jafnvel þótt framboð hans verði tekið gott og gilt. Aðrir þekktir og áberandi forsetaframbjóðendur eru stríðsherrann Khalifa Haftar, sem staðið hefur í mannskæðum hernaði gegn hersveitum hinnar alþjóðlega viðurkenndu ríkisstjórnar landsins; Abdul Hamid Dbeibah, forsætisráðherra þeirrar ríkisstjórnar og Aguila Saleh, forseti Líbíuþings.

Mikil óvissa um mikilvægar kosningar

Róstusamt hefur verið í Líbíu frá falli Gaddafis eldri til þessa dags og þrátt fyrir að leiðtogar langflestra stríðandi fylkinga í landinu hafi lýst stuðningi við fyrirhugaðar forsetakosningar er enn ekki öruggt að af þeim verði. Deilt er um fyrirkomulag,framkvæmd, reglur um frambjóðendur og nokkurn veginn allt sem hægt er að deila um.

Á miklum undirbúningsfundi í París í vikunni sem leið var samþykkt að beita hvern þann refsiaðgerðum sem reyna að trufla eða koma í veg fyrir kosningarnar. Ekkert samkomulag hefur hins vegar náðst um skilyrði fyrir kjörgengi og hverjir skuli skera úr um það að frambjóðendur uppfylli þau skilyrði.

Engu að síður er horft til kosninganna sem lykilviðburðar í þeirri viðleitni Sameinuðu þjóðanna að koma á friði í landinu, sameina og efla sundraðar og vanmáttugar lykilstofnanir ríkisins svo þær geti sinnt hlutverki sínu gagnvart almenningi og koma erlendum hersveitum og sveitum málaliða úr landi. Slíkar sveitir eru enn margar og fjölmennar í landinu, þrátt fyrir vopnahlé sem haldist hefur nokkurn veginn órofið um nokkurra mánaða skeið.