Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Stuðningur við ríkisstjórnina ekki mælst meiri í 3 ár

15.11.2021 - 15:07
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Stuðningur við ríkisstjórnina hefur ekki mæst meiri síðan í janúar 2018, er fram kemur í nýjustu fylgismælingu MMR. Þá sögðu 60% svarenda nú að þeir styddu ríkisstjórnina. Stuðningurinn nálgast því það sem var við upphaf kjörtímabils þessarar stjórnar þegar 66,7% svarenda sögðust styðja ríkisstjórnina.

Fylgi stjórnmálaflokkanna hefur ekki sveiflast mikið frá síðustu könnun MMR, Sjálfstæðisflokkur stendur í stað með 22% fylgi. Viðreisn heldur sama 8% fylgi og í síðustu könnun.

Píratar standa nánast í stað og mælast með 12,4% fylgi, en höfðu 11,8% í síðustu mælingu. Vinstri Græn bæta lítillega við sig, mælast nú með 13,9% fylgi en höfðu 11,5% í síðustu könnun. Samfylking mælist tæpum tveimur prósentum hærri, síðast með 9,5% fylgi en nú 11,1%.

Framsóknarflokkurinn tapar tæpum tveimur prósentum og mælist með 17,5% fylgi. Flokkur fólksins tapar einnig tæpum tveimur prósentu stigum, fer úr 8% fylgi í 6,2%.

Miðflokkur og Sósíalistar undir 5%

Miðflokkurinn mælist nú með 4,2% fylgi og lækka um tvö prósent frá síðustu könnun.

Sósíalistaflokkur Íslands mældist með 3,7% fylgi og 3,3% í síðustu könnun. Aðrir flokkar voru með 0,8% fylgi samanlagt.