Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Rafíþróttabraut hleypt af stokkunum á Húsavík

Mynd: Pixabay / Pixabay

Rafíþróttabraut hleypt af stokkunum á Húsavík

15.11.2021 - 11:35
Rafíþróttir eru á mikilli siglingu hjá hinum ýmsu íþróttafélögum sem bjóða upp á sértæka þjálfun í tölvuleikjum. Nú hefur Framhaldsskólinn á Húsavík um nokkurra mánaða skeið boðið upp á almennt nám í rafíþróttum.

„Þetta er ný braut sem er verið að hleypa af stokkunum hjá okkur,“ segir Sigurður Narfi Rúnarsson kennari í skólanum. „Enn sem komið er er þetta lína sem kennd er á eldri brautum. Þetta er í mótun, en verður fullgild stúdentsbraut sem mun heita rafíþróttabraut.“

Sextán nemendur eru skráðir í námið. Sem stendur eru aðeins drengir skráðir en Sigurður Narfi vill sjá það breytast, enda spili stúlkur tölvuleiki í sama mæli og drengirnir. „Við viljum gjarnan ná til þeirra og fá þær á brautina.“

Í náminu er brautarkjarni, með almennum greinum sem allir verða taka, eins og íslensku, ensku og stærðfræði. Meðfram því er boðið upp á sérstakar brautargreinar, eins og inngang að rafíþróttum 1 og 2, forritun, fjölmiðlafræði og nýmiðlun. Einnig er boðið upp á greinar af öðrum brautum sem hafa beina tengingu við rafíþróttir, eins sálfræði, íþróttafræði og næringarfræði. „Þetta eru áfangar sem væru alveg eins kenndir ef við hefðum braut fyrir hefðbundnar afreksíþróttir,“ segir Sigurður Narfi. „Þetta er eins og með aðrar íþróttir að rafíþróttamaður þarf að vera í góðu andlegu og líkamlegu formi, hann þarf að hugsa vel um svefn og næringu. Þetta er í sjálfu sér ekkert ólíkt hefðbundnum íþróttum.“

Þau vonast til að fólk víða að á landinu skrái sig í rafíþróttanámið. „Við höfum boðið upp á mikið af okkar námi í fjarnámi og viljum taka á móti sem flestum. Það er hins vegar rétt að taka það fram að við erum ekki að mæla því bót að ungmenni séu að spila tölvuleiki allar nætur og drekka orkudrykki. Það er akkúrat þveröfugt við það sem við erum að gera, við viljum tækla þessa leiki með sömu nálgun og aðrar afreksíþróttir.“

Rætt var við Sigurð Narfa Rúnarsson kennara í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Tengdar fréttir

Innlent

„Ísland er frábær vettvangur fyrir rafíþróttaviðburði“

Íþróttir

Rafíþróttir fara undir hatt ÍBR

Íþróttir

Nýr rafíþróttastaður gæti leyst vanda íþróttafélaga

Mannlíf

Æfing er lykill að velgengni í rafíþróttum