Olíu- og kolaframleiðendur óhræddir eftir COP26

15.11.2021 - 14:27
Erlent · Asía · COP26 · jarðgas · Kol · Loftslagsmál · Olía · Stjórnmál · Umhverfismál
epa09563562 A cow grazes on a pasture near by coal-fired power plant ?Kosova B? in the town of Obilic, Kosovo, 22 October 2021.  EPA-EFE/VALDRIN XHEMAJ
 Mynd: EPA
Samkomulagið sem náðist á loftslagsráðstefnunni COP26 í Glasgow um helgina virðist hafa lítil áhrif á orkugeirann og stórfyrirtæki í orkugeiranum virðast óhrædd við niðurstöðuna. Virði hlutabréfa í kínverskum kolafyrirtækjum hefur afar lítið lækkað og ríkisolíufélag Sameinuðu arabísku furstadæmanna gerir ráð fyrir 600 milljarða dala fjárfestingum í olíugeiranum næsta áratuginn.

Draga úr kolabrennslu

Viðræður um lokaútgáfu samkomulagsins drógust á langinn og var þá orðalag ýmissa ákvæða sem flæktist fyrir leiðtogunum. Breyting á ákvæði um kolaiðnað, sem var gerð á lokasprettinum, þykir umdeild.

Orðalagi samningsins hvað varðar kol var breytt úr að „horfið yrði frá“ notkun kola, yfir í að „dregið yrði úr“ notkuninni. Bæði Kínverjar og Indverjar þrýstu að orðalaginu yrðu breytt og fengu það í gegn.

Lítil lækkun

Virði hlutabréfa í kínversku fyrirtækjunum China Shenhua Energy og Yanzhou Coal dróst saman um rúmt eitt prósent og virði bréfa í Whitehaven Coal í Ástralíu um 1,6 prósent. Útkoman var svipuð víðast hvar annars staðar og samdrátturinn ekki sérstaklega mikill.

Kolagröftur Kínverja í október var sá mesti á einum mánuði í rúm sex ár. Aukinn kraftur hefur verið settur í vinnsluna nú þegar landsmenn búa sig undir veturinn.

Olíurisar funda

Forkólfar olíu- og jarðgassgeirans mættu til ADIPEC-fundarins um orkumál í Abu Dhabi, höfuðborg Sameinuðu arabísku furstadæmanna, í morgun og kalla eftir aukinni aðkomu olíu- og gasfyrirtækja og -ríkja í umræðunni um loftslagsbreytingar. 

„Ef græn orkuskipti eiga að eiga sér stað er ekki hægt að slökkva bara á þeirri orkuvinnslu sem við stólum á í dag. Maður ýtir ekki bara á takka,“ sagði framkvæmdastjóri ADNOC, ríkisolíufélags Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Olíu- og jarðgasiðnaðurinn þurfi að fjárfesta fyrir 600 milljarða dala næsta áratuginn til þess að anna eftirspurn. 

Sádiarabíski prinsinn Abdulaziz bin Salman al-Saud sagði að horfa þurfi til kringumstæðna í hverju landi fyrir sig þegar rætt er um baráttuna gegn loftslagsbreytingum. „Við megum ekki bara horfa til orkugjafans heldur þurfum við að taka ákvarðanir með útblástur í huga. Það þarf að horfa til allra gróðurhúsalofttegunda í öllum geirum,“ hafði Reuters eftir honum. 

Segja tilfinningar ráðandi í umræðunni

Mohammad Barkindo, framkvæmdastjóri OPEC, sagði loftslagsumræðuna stjórnast af tilfinningum og sagðist binda vonir við að heildrænni nálgun á málaflokkinn verði þegar ríki heims hittast á næstu loftslagsráðstefnu í Egyptalandi á næsta ári.

Talsmenn olíu-, kola- og jarðgassfyrirtækja hafa sagt að hægt sé að til dæmis binda kolefni í auknum mæli til að minnka áhrif útblásturs vegna brennslu jarðefnaeldsneytis, segir í frétt Reuters. Sú tækni er hins vegar bæði ný og dýr, hefur Reuters eftir loftslagsaðgerðasinnum, og einfaldara væri að draga úr og svo hætta notkun jarðefnaeldsneytis.

 

Þórgnýr Einar Albertsson