Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vara Kínverja við að beita Taívan hótunum og þrýstingi

14.11.2021 - 04:27
Mynd með færslu
 Mynd: Utanríkisráðuneytið
Bandaríkjastjórn varar stjórnvöld í Peking við því að beita Taívan frekari þrýstingi og hótunum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bandaríska utanríkisráðuneytinu, aðeins tveimur dögum fyrir fyrsta fund forseta stórveldanna tveggja, sem beðið er með talsverðri eftirvæntingu.

Í tilkynningu ráðuneytisins segir að Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, rætt málefni Taívans við kínverskan starfsbróður sinn, Wang Yi, á undirbúningsfundi þeirra fyrir viðræður leiðtoganna. Í því samtali hafi Blinken lýst áhyggjum Bandaríkjastjórnar „af viðvarandi hernaðarlegum, diplómatískum og efnahagslegum þrýstingi Kína gagnvart Taívan.“

Þeir Joe Biden og Xi Jinping ræða saman á fjarfundi að kvöldi mánudags að bandarískum tíma, síðla þriðjudagsmorguns að kínverskum tíma.  Jean Psaki, upplýsingafulltrúi Hvíta hússins, sagði á fimmtudag að þeir Biden og Xi hyggist „ræða leiðir til að höndla samkeppnina“ milli landanna með ábyrgum hætti og líka „leiðir til samstarfs þar sem hagsmunir okkar fara saman.“

 

Mikil spenna hefur ríkt í samskiptum Bandaríkjanna og Kína undanfarin ár, jafnt á sviði alþjóðaviðskipta, alþjóðastjórnmála og varnarmála. Þau hafa þó líka unnið saman og boðuðu sameiginlegar aðgerðir í loftslagsmálum fyrr í þessari viku. Stórveldin,  sem eru ábyrg fyrir um 40 prósentum allrar manngerðrar losunar á koldíoxíði, heita því að gera stórátak til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis, metanlosun og skógeyðingu. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV