Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Þrír skammtar heppilegri og sá fjórði ekki ólíklegur

Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon
Prófessor í smitsjúkdómafræði segir eðlilegt að mótefnasvar eftir bólusetningu gegn kórónuveirunni dvíni með tímanum. Hann telur ekki ólíklegt að fleiri sprautur þurfi til að auka mótefnasvarið enn frekar, og jafnvel þurfi að bólusetja reglulega gegn covid líkt og gert er með árstíðabundna inflúensu. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í viðtali við RÚV fyrir helgi að vonir hefðu staðið til að mótefnasvar eftir tvær sprautur af bóluefni við covid hefði varað lengur en það gerði. Því vaknar sú spurning hvort við séum í raun og veru að glata vörninni gegn veirunni smátt og smátt eftir tvær bólusetningar?

„Ég myndi ekki orða það þannig að við værum að glata þeirri vörn. Það er þekkt að mótefnin lækka eitthvað með tímanum. En það er mjög mikilvægt að hafa það hugfast að þeir sem hafa fengið bólusetningu eru í mun betri stöðu en hinir óbólusettu, jafnvel hálfu ári eða ári eftir bólusetningu,“ segir Magnús Gottfreðsson, prófessor í smitsjúkdómalækningum.

„Það er margt sem bendir til þess núna að þrír skammtar er ef til vill heppilegri skömmtun heldur en tveir. Það var í rauninni ógerningur að sjá það fyrir.“

Vörnin dvínar en forðar alvarlegum veikindum

Þegar bólusetningar fóru á fullt var talað um að tveir skammtar af bóluefnum Pfizer og Moderna, sérstaklega, veittu um 90% vörn gegn veirunni. Var það þá ekki rétt, miðað við fjölda bólusettra sem eru að smitast nú?

„Það var ekki rangt en hins vegar kemur í ljós að þegar fólki er fylgt eftir, þá dvínar þessi vörn eitthvað með tímanum. En vörnin heldur býsna vel hvað varðar alvarleg veikindi og innlagnir á sjúkrahús. Það sjáum við á okkar tölum hér að fólk sem hefur fengið bólusetningu er mun ólíklegra til þess að leggjast inn,“ segir Magnús.

Bólusetningar hafi hjálpað til að halda þjóðfélaginu gangandi.

„Ef við berum saman stöðuna í dag miðað við smittölurnar sem við erum að kljást við, þá er þjóðfélagið á miklu meiri siglingu og í raun og veru mun minni takmarkanir heldur en voru við sambærilegar aðstæður áður en við fengum bólusetningarnar.“

Telur fleiri sprautur ekki ólíklegar

Heldurðu að við þurfum að fá fjórðu sprautuna eftir hálft ár?

„Það veit í raun og veru enginn, en menn velta því fyrir sér hvort þetta verði einhvers konar hliðstæða við inflúensu þar sem við erum að ráðleggja þeim sem þola illa flensu að fá bólusetningu árlega á haustin eða veturna. Tíminn mun bara leiða það í ljós hvort þetta verði hluti af slíkri bólusetningu. Mér finnst það í raun og veru ekki mjög ólíklegt.“

Magnús segir hugsanlegt að ef reglulega þurfi að bólusetja fólk gegn covid, verði slíkt sameinað í eina sprautu sem gefin yrði á haustin eins og gegn árstíðabundnum öndunarfærasýkingum.