Mjög lítið skref þegar þróunin þarf að vera mjög hröð

Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Stefán Gíslason umhverfisfræðingur segir að niðurstaða loftslagsráðstefnunnar í Glasgow marki mjög lítið skref og hægfara þróun á tímum þegar þróunin þurfi að vera mjög hröð. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir að samvinna atvinnulífs og stjórnvalda verði að vera skýr og vonast eftir að sjá meiri metnað í nýjum stjórnarsáttmála.

Loftslagsráðstefnunni lauk í gærkvöld með samþykkt sem hefur reynst umdeild. Stefán segist ekki hafa gert sér mjög miklar vonir fyrir fram. „Vonbrigði eða ekki vonbrigði? Við hverju bjóst maður svo sem? Þetta er mjög lítið skref og mjög hægfara þróun á tímum þegar þróunin þarf að vera mjög hröð.“

Miðað við spár gætu liðið ellefu til tólf ár þar til losunin er orðin meiri en svo að hægt sé að halda hlýnun undir einni og hálfri gráðu. Því fyrr sem ráðist er í aðgerðir þeim mun meiri árangri skila þær. Stefán setti upp dæmi um ímyndaða aðgerð. „Þessi aðgerð, gefum okkur það að hún dragi úr losun um milljón tonn á ári. Ef við gerum það núna þá náum við þessum árangri tíu sinnum á þessum tíu árum. Ef við gerum það eftir níu ár þá náum við honum einu sinni. Aðgerðin kostar það sama. Við eigum val um það fyrir þessa tíu milljarða hvort við ætlum að fá milljón tonna samdrátt eða tíu milljón tonna samdrátt,“ sagði Stefán í Silfrinu.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, sagði að samvinna atvinnulífs og stjórnvalda verði að vera skýr, stjórnvöld þurfi að setja upp græna hvata til að fjárfestingarnar verði að veruleika. „Það vantar heilmikið upp á það og ég er mjög vongóður um það að við munum sjá einhvern meiri metnað í þeim efnum þegar ný ríkisstjórn verður mynduð og sýnir á spilin í stjórnarsáttmála.“

Orkuskipti þurfa að vera réttlát

Sigurður segir að orkuskiptin í heiminum til að bregðast við loftslagsbreytingum þurfi að vera réttlát og gagnast öllum. Hann sagði mikilvægt að umskiptin yrðu hagkvæm svo þeim yrði hrint í framkvæmd. „Hver erum við að segja við Indverja til dæmis í þessu tilliti að hætta að brenna kolum sem er hagkvæmt fyrir þau að gera og annað hvort þá að rýra sín lífsgæði eða fara í aðra orkugjafa sem eru kostnaðarsamari. Það er líka hugleiðing fyrir okkur að orkuskiptin hér á landi sem hafa svolítið lagt grunn að okkar árangri sögulega í þessum málum urðu vegna þess að þau voru efnahagslega hagkvæm, sem sagt rafvæðing og svo hitaveituvæðingin.“

Stefán benti einnig á að Íslendingar notuðu margfalt meiri jarðefnaeldsneyti á hvern íbúa en Indverjar jafnvel þó hér séu endurnýjanleg orka notuð í miklum mæli.