Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Læknir sakaður um kynferðislega áreitni sendur í leyfi

Mynd: RÚV / RÚV
Læknir á Landspítalanum hefur verið sendur í leyfi vegna ásakana nokkurra samstarfskvenna hans um kynferðislega áreitni. Mannauðsdeild spítalans hefur málið til skoðunar og hefur vinnuframlag læknsins verið afþakkað á meðan. Á meðan á þessari skoðun hefur staðið hefur ásökunum á hendur lækninum fjölgað.

Eftir því sem fréttastofa kemst næst eru um þrjú ár frá því hegðunin hófst sem hefur verið til rannsóknar hjá mannauðsdeild Landspítalans. Málið mun upphaflega hafa borist inn á borð stjórnenda sem orðrómur. Samkvæmt heimildum fréttastofu RÚV var brugðist við með því að stuðnings- og ráðgjafateymi spítalans átti við lækninn nokkur samtöl um hvað teldist eðlileg framkoma á vinnustað. 

Ávirðing ekki áminning

Fyrir um ári barst Landspítalanum svo formleg kvörtun frá kvenkyns lækni um kynferðislega áreitni fyrrnefnds læknis. Þá var hafin rannsókn á málinu og rætt við vitni. Niðurstaðan varð sú að framkoma læknisins teldist vera kynferðisleg áreitni. Ákveðið var að veita honum skriflega ávirðingu og þess krafist að hann léti af hegðuninni. Það hafi verið lögfræðilegt mat spítalans að veita lækninum ekki formlega áminningu og mun það hafa byggst á mati á alvarleika áreitninnar.

Óviðeigandi myndsending

Eftir þetta bárust yfirmönnum spítalans hins vegar frekari upplýsingar og myndin af framferði læknisins varð skýrari. Til að mynda hafi borist ábendingar um óviðeigandi myndsendingar læknisins til kvenkyns samstarfsmanna. Við þessar upplýsingar ákvað spítalinn að afþakka vinnuframlag læknisins meðan málið væri rannsakað betur. Lækninum hefur ekki verið sagt upp störfum. 

Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að fleiri en ein kona á spítalanum hafi kvartað undan kynferðislegri áreitni læknisins.

Landspítalinn vildi ekki tjá sig um málið þegar fréttastofa RÚV hafði samband. Þær upplýsingar fengust þó frá spítalanum að á undanförnum fjórum árum hefðu níu mál er varða kynferðislega áreitni farið í formlegt ferli á spítalanum. Í svari spítalans kemur fram að þegar mál af þessu tagi komi upp sé :

  • „starfsmaður sem upplifir áreitni hvattur til að tilkynna það til næsta stjórnanda og/eða mannauðsstjóra.“

Fréttastofa RÚV hefur heimildir fyrir því að konur sem starfa á Landspítalanum hafi kvartað til framkvæmdastjóra mannauðs undan kynferðislegri áreitni læknisins en fengið þau svör að deildin ætti að leysa málið sjálf. Konur hafi jafnframt sent tölvupóst á alla helstu yfirmenn spítalans þar sem kvartað var undan lækninum og nefnd dæmi um framferði hans. Engin svör hafi borist við þeim pósti. 

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV