Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Grunur um íkveikju þar sem Íslendingur fannst látinn

14.11.2021 - 18:20
Mynd með færslu
 Mynd: politiet.dk
Tæplega fertugur karlmaður er í haldi lögreglunnar í Kaupmannahöfn í Danmörku grunaður um að hafa kveikt í húsi þar sem Íslendingur fannst látinn. Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald á fimmtudag.

Íslendingurinn fannst látinn eftir að eldur kom upp í smáhýsi á Amager í Kaupmannahöfn aðfaranótt þriðjudags í síðustu viku. Í tilkynningu sem lögreglan í Kaupmannahöfn sendi frá sér á fimmtudag segir að 39 ára karlmaður hafi verið handtekinn grunaður um íkveikju. Hann hefur verið úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald á meðan málið er til rannsóknar.

Rannsókn dönsku lögreglunnar beinist meðal annars að því hvort Íslendingurinn hafi verið látinn áður en eldurinn kom upp.
Málið er núna rannsakað sem íkveikja en það gæti breyst þegar niðurstaða krufningar liggur fyrir. Hinn grunaði hefur hingað til neitað allri sök.

Danska lögreglan gat ekki gefið frekari upplýsingar um málið þegar fréttastofa hafði samband í dag. Lögregluyfirvöld hér á landi staðfesta að hinn látni sé Íslendingur og þegar hafi verið haft samband við aðstandendur hans.

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV