Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hungursneyð vofir yfir milljónum afganskra barna

epa09571253 Afghan health workers administer Polio and Vitamins drops to Afghan children during a country wide polio vaccination drive in Kabul, Afghanistan, 08 November 2021. Afghanistan on 08 November, began a nationwide polio vaccination campaign for the first time in more than three years with the backing of the Taliban and amid concerns for the safety of health workers due to frequent attacks against them. Before the Taliban took control of Kabul on 15 August, polio immunization campaigns had been restricted due to the conflict in the country and opposition by fundamentalists to door-to-door vaccination in the territories under their control. Afghanistan and Pakistan are currently the only two countries where the polio virus is still in transmission, with dozens of positive cases reported annually among children under the age of five.  EPA-EFE/STRINGER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, varar við yfirvofandi hungursneyð í Afganistan. Sérfræðingar stofnunarinnar telja að allt að þrjár milljónir afganskra barna muni búa við næringarskort í árslok. Þriðjungur þeirra, ein milljón barna, mun að óbreyttu búa við lífshættulega hungursneyð þegar nýtt ár gengur í garð.

 

„Þetta er erfið barátta, hungurdauðinn vofir yfir landinu,“ sagði Margaret Harris, upplýsingafulltrúi stofnunarinnar í Genf í gær. „Umheimurinn má ekki og getur ekki leyft sér að snúa baki við Afganistan.“

Tvö löng og krefjandi þurrkatímabil hafa gengið yfir Afganistan á síðustu þremur árum, annað þeirra á þessu ári. Þetta hefur meðal annars leitt til þess að verð á hveiti hefur hækkað um 28 prósent milli ára.

Flótti brostinn á meðal afgansks fagfólks

Kreppan í atvinnu- og efnahagslífi landsins hefur dýpkað og var þó ærin fyrir. Fjöldi fólks sem starfað hefur í heilbrigðisgeiranum hefur gefist upp á að bíða eftir launum sínum og yfirgefið landið. Samkvæmt Norsku flóttamannahjálpinni hafa yfir 300.000 Afganar flúið til Írans. Straumurinn liggur enn þangað að sögn samtakanna, sem áætla að 4 - 5.000 manns flýi yfir til Írans á degi hverjum.

Vetrarhörkur og mislingar auka á neyðina

Vetur gengur brátt í garð í Afganistan og reiknar Harris með auknum veikindum þegar frostið fer að bíta. Heilu deildirnar á sjúkrahúsum landsins eru þegar „fullar af litlum börnum“ að sögn Harris.

Hún segir að mislingafaraldur sé í uppsiglingu og að um 24.000 tilfelli hafi greinst nú þegar. „Mislingar eru dauðadómur fyrir vannærð börn. Við eigum eftir að sjá mun fleiri dauðsföll ef við bregðumst ekki skjótt við,“ sagði Harris í höfuðstöðvum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar í Genf.