Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Getur krafist slita á 1600 fyrirtækjum eða félögum

13.11.2021 - 19:25
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Sextán hundruð félög eða fyrirtæki eiga yfir höfði sér að skatturinn beiti nýju úrræði og krefjist slita og skiptingu á búi félagsins. Skattalögfræðingur segir að þetta þýði aukinn kostnað fyrir ríkissjóð þar sem ríkið þarf þá að greiða fyrir gjaldþrotaskiptin. Þetta geti hins vegar komið í veg fyrir kennitöluflakk og undanskot.

Fyrirtæki eiga að skila Skattinum ársreikningi átta mánuðum eftir að reikningsári lýkur. Ef þau gera það ekki er hægt að sekta þau um 600 þúsund krónur. Ef það líða svo sex mánuðir til viðbótar og ekkert bólar á ársreikningi er Skatturinn kominn með nýtt verkfæri í hendurnar: reglugerð sem hljóðar upp á það að Skatturinn geti krafist þess að félaginu verði slitið og búi þess skipt upp. 

Alls eru 1600 fyrirtæki eða félög sem eru komin í svo mikil vanskil með ársreikning að Skatturinn getur krafist þess að þeim verði slitið. Þetta kemur fram í skriflegu svari Skattsins við fyrirspurn Fréttastofu RÚV. Ekki eru talin með félög sem eru í gjaldþrotameðferð eða skiptum lokið. Fimm ár eru frá því lög voru sett um að unnt væri að krefjast slita en þar var svo ekki fyrr en fyrir mánuði að ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar setti reglugerð sem heimilar Skattinum að beita lagaákvæðinu. Fréttastofa spurði Skattinn hvort ákvæðinu hefði verið beitt og farið fram á slit félags. Svarið var:

Nei, slíkt hefur ekki verið gert þar sem bæði þarf að koma til reglugerð og fjárveitingar.

„Ég hugsa að þetta geti virkað sem talsvert aðhald í mörgum tilvikum. Eins er þetta kannski eitthvað sem mun sporna gegn kennitöluflakki af því að þarna mun ferillinn samkvæmt gjaldþrotaskiptalögunum hefjast miklu fyrr heldur en áður þar sem það er hægt að grípa mjög fljótt inn í ef einhverjir eru að stunda kennitöluflakk,“ segir Guðbjörg Þorsteinsdóttir, skattalögfræðingur hjá Deloitte Legal.

Þegar félagi eða fyrirtæki er slitið er það sama ferli og gjaldþrotameðferð. Og hver er kostnaður? Í svari skattsins segir:

Þegar frá er talinn kostnaður sem nemur einu viðtótarstöðugildi sem og kostnaður við að aðlaga tölvukerfi embættisins að þessu verkefni þá þarf bæði að leggja fram tryggingu vegna kostnaðar skiptastjóra sem nemur 350.000 kr. sem og dómstólagjöld að fjárhæð 19.000 kr.

Stjórnendur sem ekki skila ársreikningi teljast hafa sýnt refsiverða háttsemi. Í lögum um ársreikninga kemur fram:

Hver sá sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi brýtur gegn ákvæðum laga þessara á þann hátt sem lýst er í 122. og 123. gr. skal sæta sektum eða fangelsi allt að sex árum.

Sá sem fer fram á gjaldþrot fyrirtækis þarf að greiða þrjú hundruð og fimmtíu þúsund króna trygginguna. Ef þá fjárhæð er ekki að hafa upp úr þrotabúinu situr sá sem fór fram á gjaldþrot uppi með tapið. Guðbjörg segir að einhverjir kunni að freista að bíða með slit á félaginu í þeirri von að ríkið reiði fram trygginguna.

„Þetta mun vera aukinn kostnaður sem fellur á ríkissjóð. Mögulega mun þetta samt sem áður ná til baka einhverjum tilvikum þar sem menn hafa verið að stunda einhvers konar undanskot,“ segir Guðbjörg.