Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Biden og Xi ræðast við á mánudagskvöld

13.11.2021 - 05:49
epa06001520 (FILE) - Smokes billow out of chimneys at a chemical plant in north China's Tianjin municipality, 23 December 2008 (reissued 31 May 2017). US media report on 31 May 2017 that US President Trump is set to withdraw the USA from the Paris Climate Agreement, citing senior officials.  EPA/RYAN TONG
 Mynd: EPA
Forsetar Bandaríkjanna og Kína, þeir Joe Biden og Xi Jinping, hafa mælt sér mót á fjarfundi á mánudag. Skrifstofa bandaríska forsetaembættisins í Hvíta húsinu staðfesti þetta í gærkvöld. Verða þetta fyrstu milliliðalausu viðræður leiðtoganna frá því að Biden tók við forsetaembættinu vestra í janúar.

Mikil spenna hefur ríkt í samskiptum stórveldanna undanfarin ár, jafnt á sviði alþjóðaviðskipta, alþjóðastjórnmála og varnarmála. Þau hafa þó líka unnið saman og boðuðu sameiginlegar aðgerðir í loftslagsmálum fyrr í þessari viku.

Jean Psaki, upplýsingafulltrúi Hvíta hússins, sagði í gærkvöld að þeir Biden og Xi hyggist funda á mánudagskvöld til að „ræða leiðir til að höndla samkeppnina“ milli landanna með ábyrgum hætti og líka „leiðir til samstarfs þar sem hagsmunir okkar fara saman.“

Samkomulag stórveldanna um samvinnu í loftslagsmálum var kynnt til sögunnar á miðvikudag. Þar sammælast Kína og Bandaríkin, sem eru ábyrg fyrir um 40 prósentum allrar manngerðrar losunar á koldíoxíði, um að gera stórátak til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis, metanlosun og skógeyðingu.