Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Meinað að fljúga frá Tyrklandi til Hvíta-Rússlands

12.11.2021 - 10:01
epa09577132 Migrants warm themselves on their camp at the Belarus-Polish border in the Grodno region, not far from the checkpoint Bruzgi, Belarus, 11 November 2021. Hundreds of refugees who want to obtain asylum in the European Union have been trapped at low temperatures for four days at the border.  EPA-EFE/STR
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ríkisflugfélag Hvíta-Rússlands tilkynnti í morgun að Sýrlendingar, Írakar og Jemenar fái ekki að koma til landsins í flugi frá Tyrklandi. Þetta er gert að beiðni tyrkneskra stjórnvalda hefur AFP fréttastofan eftir tilkynningunni.

Á vef Belavia er tilkynningu beint til ríkisborgara ríkjanna þriggja. Þar segir að þeir fái ekki að fara um borð í flugvélar á leið frá Tyrklandi til Hvíta-Rússlands frá og með deginum í dag, samkvæmt ákvörðun tyrkneskra yfirvalda. 

Styr hefur staðið um flóttamenn sem vonast til þess að komast frá Hvíta-Rússlandi til Póllands, og þar með inn í Evrópusambandið. Hvítrússnesk stjórnvöld eru sökuð um að flytja flóttamenn sérstaklega til landsins og koma þeim fyrir við landamærin að Póllandi. Pólskir landamæraverðir hafa komið sér fyrir við landamærin til þess að hefta för flóttamanna.

Vestræn stjórnvöld telja Alexander Lukasjenka lokka flóttamenn til Hvíta-Rússlands til þess að hefna sín á refsiaðgerðum þeirra vegna forsetakosninganna í fyrra. Þar gjörsigraði hann helsta andstæðing sinn samkvæmt niðurstöðu kjörstjórnar í landinu, en talið er að brögð hafi verið í tafli. Þá brugðust vestræn ríki harkalega við þeirri ákvörðun hvítrússneskra yfirvalda að beina flugvél Ryanair til landsins til þess að handtaka aðgerðarsinna.

Helsti bandamaður Lukasjenka, Vladimír Pútín Rússlandsforseti, hvatti í gær Evrópusambandsríkin til viðræðna við hvítrússnesk stjórnvöld. Öðruvísi verði deilan ekki leyst.