Loðnan enn ófundin - bræla hamlar leit

12.11.2021 - 12:30
Loðna
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Loðnuskipin hafa enn ekki fundið neina loðnu sem heitið getur og eru ekki byrjuð að kasta. Þrjú skip Síldarvinnslunnar, Bjarni Ólafsson, Börkur og Beitir eru við leit djúpt norður af landinu. Þá leita danska skipið Ísafold og sænska skipið Clipperton í og við grænlensku lögsöguna.

Samkvæmt upplýsingum frá Síldarvinnslunni hafa skipin lítið séð enn sem komið er. Veður setur strik í reikninginn því skipin þurfa ítrekað að gera hlé á leitinni og koma sér í var. Stærsta loðnuvertíðin í 20 ár er að hefjast og mega íslensku skipin veiða rúmlega 660 þúsund tonn af loðnu.