Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

50 manna samkomutakmarkanir taka gildi á miðnætti

12.11.2021 - 11:56
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í morgun að almennt megi 50 manns koma saman en 500 mega koma saman þar sem hraðprófa er krafist. Eins metra regla verður óbreytt. Afgreiðslutími veitingastaða verður styttur til klukkan 22 og seinustu gestir verða að koma sér út fyrir klukkan 23.

Líkamsræktarstöðvar mega taka á móti 75 prósentum leyfilegs gestafjölda.  Þessar aðgerðir taka gildi á miðnætti og gilda í þrjár vikur. Svandís segist fara alfarið eftir tilmælum Þórólfs Guðnasonar, nema hvað varðar grímunotkun yngsta aldurshópsins. 

Í gær greindust 176 með kórónuveirusmit innanlands. Það eru færri en í fyrradag þegar 200 greindust. Tæpur helmingur, eða 86, voru utan sóttkvíar. Nýgengi innanlandssmita er nú 469,3 og hefur aldrei verið hærra. Tuttugu eru á sjúkrahúsi með COVID-19, þar af fjórir á gjörgæslu.

Nýgengi smita er reiknað út frá fjölda smita á hverja 100.000 íbúa síðustu 14 daga. Í gær var það 445,1 sem var hæsta nýgengi frá upphafi faraldursins hér á landi. Það var áður hæst 9. ágúst í sumar þegar það var 433,6.

Átta smit greindust við landamærin, sex þeirra sem þar greindust eru fullbólusettir og er nýgengi landamærasmita 27,5.

Rúmur helmingur þeirra 176 sem greindust í gær, eða 91, er fullbólusettur. Nú eru 1.585 með virkt smit á landinu. Flest er það fólk á aldrinum 18-29 ára eða 344.  Börn, 12 ára og yngri, með COVID-19 eru 295. Þar af eru níu yngri en eins árs.

Takmarkanir sem taka gildi á miðnætti, aðfaranótt 13. nóvember:

 • Almennar fjöldatakmarkanir 50 manns: Börn fædd 2016 og síðar teljast ekki með. Í þessu felst að óheimilt er að fleiri en 50 komi saman, hvort heldur inni eða utandyra, í opinberum rýmum eða einkarýmum. 
 • Nálægðarmörk 1 metri milli ótengdra aðila: Ef ekki er hægt að virða mörkin er skylt að nota andlitsgrímu. Þrátt fyrir þetta eru íþróttir með snertingu áfram heimilar hjá börnum og fullorðnum. Enn fremur eru leikskólabörn og nemendur í 1. - 4. bekk grunnskóla undanþegin 1 metra reglunni.
 • Grímunotkun: Skylt er að nota grímu sé ekki hægt að virða 1 metra reglu, s.s. í verslunum, almenningssamgöngum og starfsemi sem krefst nándar, t.d. á hárgreiðslustofum. Börn fædd 2006 og síðar eru undanþegin grímuskyldu. 
 • Fjölmennir viðburðir með notkun hraðprófa: Heimilt er að halda viðburði fyrir 500 manns í hverju sóttvarnahólfi ef allir gestir fæddir 2015 og fyrr framvísa neikvæðri niðurstöðu úr hraðprófi sem má ekki vera eldra en 48 klukkustunda. Ef ekki er hægt að uppfylla 1 metra reglu skulu gestir bera grímu, að undanskildum börnum fæddum 2006 eða síðar. Heimilt er að víkja frá 1 metra reglu þegar gestir sitja en þá ber að nota grímu. Skylt er að skrá gesti í föstum sætum með nafni, kennitölu og símanúmeri. Óheimilt er að selja veitingar í hléi. Á skólaskemmtunum með hraðprófum í grunn- og framhaldsskólum er undanþága frá 1 metra reglu og grímuskyldu.
 • Sund- og baðstaðir, líkamsræktarstöðvar og skíðasvæði mega taka á móti 75% af leyfilegum  hámarksfjölda gesta samkvæmt starfsleyfi. Börn fædd 2016 eða síðar teljast ekki með.
 • Opnunartími veitingastaða o.fl.: Veitingahúsum og öðrum stöðum þar sem áfengisveitingar eru heimilar er óheimilt að hleypa inn nýjum viðskiptavinum eftir kl. 22.00 og allir gestir eiga að vera farnir í síðasta lagig kl. 23.00. Vínveitingar skulu aðeins bornar fram til sitjandi gesta. Skylt er að halda skrá yfir gesti. Einkasamkvæmi á stöðum með vínveitingaleyfi eru óheimil eftir kl. 23.00.
 • Verslanir og söfn: Í verslunum og söfnum gilda almennar reglur um 50 manna fjöldatakmörk, 1 metra reglu og grímuskyldu. Þó er heimilt að taka á móti fimm viðskiptavinum til viðbótar á hverja 10 m² en þó aldrei fleiri en 500 að hámarki.

Skólastarf:

 • Í skólastarfi gilda almennar reglur um 50 manna fjöldatakmörk nema börn fædd 2016 og síðar eru undanskilin. Börn fædd 2006 og síðar eru undanþegin grímuskyldu. 
 • Starfsfólki í leikskólum er ekki skylt að nota grímu í samskiptum við leikskólabörn.
 • Kennurum í grunnskólum er heimilt að taka niður grímu eftir að sest er niður inni í skólastofum.
 • Nemendum og kennurum í framhaldsskólum er heimilt að taka niður grímu eftir að sest er niður inni í skólastofum.
 • Blöndun milli hópa í skólastarfi er heimil á öllum skólastigum.

Hér má sjá minnisblað sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra.

Fréttin hefur verið uppfærð