Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Ótækt að landeigendur stöðvi umbætur í Reynisfjöru

Mynd með færslu
 Mynd: Roar Aagestad
Verkefnastjóri slysavarna hjá Landsbjörg segir hluta landeigenda hafa staðið í vegi fyrir því að öryggi yrði bætt í Reynisfjöru þar sem ung kona lést í gær. Það sé ótækt að hægt sé að stöðva nauðsynlegar betrumbætur. 

Ferðmálastofa lét gera tillögur um aukið öryggi í Reynisfjöru og búið var að fjármagna framkvæmdir þess vegna.

„Það sem gerist nú yfirleitt þarna í Reynisfjöru er að fólk er að horfa á ölduna og allt þess háttar. Svo er það einhvers staðar á bilinu fimmta til tíunda hver alda sem er stærri og kraftmeiri og fer lengra upp á land. Og það gerist í þessu tilfelli og grípur fjóra einstaklinga með sér,“ segir Jónas Guðmundsson verkefnastjóri slysavarna hjá Landsbjörg.

Þremur tókst að bjarga sér en ungu konunni ekki. Hún var í fimmtán manna hópi með íslenskum leiðsögumanni.

Jónas segir ýmislegt hafa verið gert til að auka öryggi eftir að Reynisfjara eða the Black Beach eins hún er stundum nefnd varð einn aðalviðkomustaður ferðamanna. Fyrir nokkrum misserum hafi átt að gera enn betur og þá var skipaður  starfshópur að frumkvæði ferðamálaráðuneytisins. 

„Tillögur þess hóps voru að setja upp þarna í fjörunni blikkljós sem myndu blikka þegar aðstæður væru mjög erfiðar eða hættulegar. Setja upp fána sem hefði fyrirmynd sína frá þessu alþjóðlega fánakerfi sem er á ströndum og mjög margir ef ekki flestir þekkja. Og jafnvel að setja upp hlið þ.a. einhverja dagsparta á ári þegar aðstæður eru sérstaklega erfiðar yrði hreinlega fjörunni lokað. Ferðamálaráðherra var búinn að taka til fé til að kosta þetta allt saman. Þetta strandaði því miður á hluta landeigenda þarna á staðnum. Að einhver hluti landeiganda hafnaði að þetta yrði sett upp. Og okkur finnst það auðvitað sem störfum í þessu, okkur finnst það auðvitað ótækt að ekki sé hægt að stíga þetta skref í öryggismálum á staðnum sem nauðsynlegt er.“

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu munu landeigendur sem reka veitingastaðinn Svörtu fjöru ekki hafa fellt sig við öryggistillögurnar. 

Fréttin hefur verið uppfærð.