Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

De Klerk látinn

11.11.2021 - 11:13
F. W. de Klerk, síðasti hvíti forseti Suður-Afríku, og Nelson Mandela, heilsast á ráðstefnu Alþjóðaefnahagsráðsins í Davos í Sviss, árið 1992.
 Mynd: World Economic Forum - Wikimedia Commons
Frederik Willem de Klerk, fyrrverandi forseti Suður-Afríku, er látinn. Hann var 85 ára gamall og greindist með krabbamein í mars.

De Klerk gegndi embætti forseta frá 1989 til 1994, síðastur hvítra manna í landinu, og fékk friðarverðlaun Nóbels ásamt eftirmanni hans, Nelson Mandela, árið 1993 fyrir sameiginlega vinnu gegn aðskilnaðarstefnu landsins.

Forsetinn fyrrverandi er einna helst þekktur fyrir að hafa sleppt Mandela úr fangelsi árið 1990 og fyrir að hafa aflétt banni við öðrum stjórnmálaflokkum en hans eigin Þjóðarflokki.

De Klerk var þó umdeildur og vakti til dæmis reiði síðast í fyrra þegar hann neitaði að gangast við því að aðskilnaðarstefnan geti flokkast undir glæpi gegn mannkyni. Þá baðst hann ekki afsökunar á stefnunni sjálfri, einungis afleiðingum hennar.

 

Þórgnýr Einar Albertsson