Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Alltaf eitthvað um að fólk fái ekki vinnu

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Atvinnuleysistölur eru nú þær sömu og þær voru fyrir kórónuveirufaraldurinn en spáð er auknu atvinnuleysi í þessum mánuði og þeim næsta vegna árstíðabundinna sveiflna í atvinnu- og efnahagslífi. Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar segir alltaf eitthvað um að fólk fái ekki vinnu af ýmsum ástæðum.

„Það er samdráttur í samfélaginu; það er byggingageirinn og ferðamennskan - það fækkar túristum yfir vetrarmánuðina og kannski farið minna á sjó osfrv. Það er bara árstíðabundinn samdráttur sem alltaf verður og svo lifnar allt og glæðist á vorin og þá minnkar atvinnuleysi aftur,“ sagði Unnur í Morgunútvarpi Rásar tvö í morgun.

Unnur segir erfitt að segja hvers vegna svo mikið atvinnuleysi sé enn á Suðurnesjum, en líkleg skýring sé að enn sé talsvert langt í land með að fjöldi ferðamanna verði svipaður og fyrir kórónuveirufaraldurinn. Þá búi þar talsverður fjöldi fólks af erlendum uppruna en atvinnuleysi í þeim hópi hafi lengi verið talsvert meira en hjá öðrum landsmönnum:

„Við settum á stofn sérstaka alþjóðadeild til þess að greina þennan hóp og koma honum til aðstoðar. Og það virðist hafa tekist að því leytinu til að þessum hópi hefur fækkað jafn hratt og Íslendingum.“

Unnur segir að fullyrðingar um að hingað komi fólk frá öðrum löndum sem hafi ekki hug á að fara út á vinnumarkað rangar. „Ég held að fólk ætti að hugsa um þetta út frá hinni hliðinni.  Að við hefðum aldrei getað sinnt ferðaiðnaðinum eins og við gerðum án aðstoðar frá fólki frá útlöndum. Við hefðum aldrei rekiið þetta samfélag án þess að fá vinnuafl erlendis frá.“

Unnur segir að vel hafi gengið að vinna þjóðina út úr atvinnuleysi sem fylgir faraldrinum. „Við erum komin á sama stað og við vorum í janúar - febrúar 2020. Að vera í kringum 5% er ekki það sem við erum ánægð með hér á Íslandi. Mér finnst að viðspyrnan hafi gengið vel.“

Unnur segir að ekki sé komið að því að fólk, sem missti störf sín í faraldrinum, detti út af atvinnuleysisbótum, en það hafi 30 mánuði til þess. Boðið sé upp á ýmis konar virkni og leitast við að aðstoða fólk. Hún segir enga tölfræði til um fólk sem hefur fullt starfsþrek en fær ekki vinnu vegna til dæmis brota eða umdeildrar hegðunar. Vinnumálastofnun hefur verið í samstarfi við fangelsismálayfirvöld við að útvega fólki starf eftir afplánun. 

„Það er fólk úti í samfélaginu sem á erfitt með að fá vinnu af ýmsum ástæðum. Það er alltaf mjög vont að vera án vinnu, fullfrískur og með fullt starfsþrek - það er eitt það versta sem fólk lendir í. Það eru sumir atvinnurekendur sem eru tilbúnir til að gefa fólki tækifæri aftur og sumir ekki.“

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir