
SÞ reyna að bjarga afgönsku heilbrigðiskerfi
Erfitt að koma fjármagni til landsins
Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna og Global Fund stóðu að verkefninu sem er framhald af áætlun Alþjóðabankans. Bankinn hætti sínum aðstoðarverkefnum í landinu þegar Talíbanar steyptu ríkisstjórn Afganistans af stóli í ágúst.
Frá valdaskiptum hefur gengið erfiðlega að koma nægu fjármagni inn í landið til þess að fjármagna mannúðaraðstoð fyrir þær milljónir sem eru nú á barmi hungursneyðar, segir í frétt Reuters um málið.
Algjört hrun kerfisins
„Einhver neyddist til þess að taka af skarið. Við erum að horfa upp á algjört hrun afganska heilbrigðiskerfisins og hagkerfisins í heild. Global Fund útvegaði fjármagnið og við sáum um framkvæmdina. Við höfum sýnt að þetta er mögulegt,“ sagði Kanni Wignaraja, yfirmaður Þróunaráætlunarinnar í Asíu og á Kyrrahafi.
Samhliða launagreiðslunum var álíka fjármagni varið í búnað, lyf og aðrar nauðsynjar fyrir afganska heilbrigðiskerfið. Verkefnið náði til 31 héraðs af alls 34 í landinu.
Annars myndu allir læknar flytja úr landi
Wignaraja segir innspýtinguna hafa verið bráðnauðsynlega enda sé afganska hagkerfið nú í djúpri lægð. Verðmætar eignir ríkisins voru frystar við valdaskiptin og þróunaraðstoð sett á ís.
„Ef ekki væri fyrir þessar launagreiðslur myndu bókstaflega allir afganskir læknar, hjúkrunarfræðingar og annað sérhæft starfsfólk flytja úr landi,“ sagði Wignaraja.