
Óttast að mislingafaraldur geti verið yfirvofandi
Tuttugu og tvær milljónir ungabarna fengu ekki fyrri skammt bóluefnis við mislingum í fyrra. Það eru þremur milljónum fleiri en árið 2019. Þetta er mesta aukning á óbólusettum börnum í áratugi, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar og Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna. Til þess að halda mislingum í skefjum þurfa níutíu og fimm prósent að vera bólusett. Aðeins sjötíu prósent barna í heiminum fengu annan skammtinn á réttum tíma í fyrra.
Aðgerðir vegna covid höfðu þau áhrif að færri mislingasmit voru greind í fyrra en árin á undan. Að sama skapi færðist áhersla á eftirlit með útbreiðslu mislinga yfir á eftirlit með covid. Haft er eftir sérfræðingum í skýrslunni að líklega sé núna lognið á undan storminum. Verði ekki gripið til aðgerða, fleiri börn bólusett og betur fylgst með, geti brotist úr mannskæður mislingafaraldur þegar ferðalög og samskipti færist í sama horf og fyrir Covid.