Langanesbyggð í nýjar skrifstofur eftir langt ferðalag

10.11.2021 - 16:22
Mynd með færslu
 Mynd: Langanesbyggð
Sveitarfélagið Langanesbyggð tók á dögunum í notkun nýjar skrifstofur við Langanesveg 2 á Þórshöfn. Þar með lauk 45 ára löngu ferðalagi skrifstofu sveitarfélagsins um Þórshöfn.

Nýju skrifstofurnar eru í húsi sem upphaflega var byggt fyrir verslun Kaupfélags Langnesinga. Langanesbyggð keypti húsið 2018 af Byggðastofnun og hefur það verið endurnýjað frá grunni. Í húsinu eru, auk skrifstofa sveitarfélagsins, þrjár íbúðir og verslun ÁTVR.

Skrifstofurýmið er um 260 fermetrar og auk fjögurra starfsmanna sveitarfélagsins eru þar til húsa starfsmenn sýslumanns á Norðurlandi eystra, Verkalýðsfélags Þórshafnar, Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins og Kristín Heimisdóttir sálfræðingur.

Mynd með færslu
 Mynd: Langanesbyggð
Starfsfólk og gestir við opnun nýju skrifstofanna

„Skrifstofa Langanesbyggðar og áður Þórshafnarhrepps hefur ferðast nokkuð um Þórshöfn á þeim 45 árum sem hún hefur verið starfrækt með ráðnu starfsfólki,“ sagði Jónas Egilsson, sveitarstjóri, við opnun nýju skrifstofanna. Hann sagði að frá árinu 1976 hefðu sveitarfélögin verið með skrifstofur á sex stöðum á Þórshöfn.

Þá skýrði Jónas frá því að Langanesbyggð hafi fest kaup á Fjarðarvegi 5 á Þórshöfn, þar sem Landsbankinn var til húsa. Ætlunin sé að skapa þar aðstöðu fyrir ný störf í sveitarfélaginu. „Því má segja að hér er „allt að gerast“ og mikill hugur í Langnesingum þegar horft er til framtíðar.“