Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Heilsupassinn tekinn upp í Danmörku á ný á föstudag

Mynd með færslu
 Mynd: DR
Frá og með föstudeginum næsta þurfa Danir aftur að framvísa rafrænum heilsupassa til að taka þátt í og vera viðstaddir fjölmenna viðburði. Passann fá þau sem eru fullbólusett gegn COVID-19, hafa fengið sjúkdóminn og náð sér að fullu eða framvísa neikvæðri niðurstöðu úr nýju COVID-19 prófi. Farsóttarnefnd danska þingsins samþykkti þessa tillögu ríkisstjórnar Mette Frederiksen í gærkvöld og leiðin því greið fyrir endurupptöku heilsupassans, sem aflagður var í sumar.

Reglugerðin tekur gildi klukkan sex að morgni föstudagsins 12. nóvember og gildir í fjórar vikur til að byrja með. Heilbrigðisráðuneytið greindi frá því í gærmorgun að ætlunin væri að reglugerðin gilti í fjóra mánuði, en ekki reyndist meirihluti fyrir því í farsóttarnefndinni. Þess í stað verður staðan tekin undir lok gildistímans og metið hvort ástæða þyki til að framlengja hann.

Krafa um heilsupassa á hvers kyns fjöldasamkomum

Gestir á sjúkrahúsum þurfa að framvísa passanum og það þurfa gestir á veitinga- og skemmtistöðum, fjölmennum ráðstefnum og fyrirlestrum líka að gera. Passans er einnig krafist á öllum menningar-, íþrótta- og samfélagsviðburðum þar sem fleiri en 200 koma saman innanhúss og fleiri en 2.000 utan dyra, svo það helsta sé nefnt.

Stjórnvöld í Danmörku afléttu öllum takmörkunum vegna kórónaveirufaraldursins 10. september síðastliðinn, þar sem COVID-10 teldist ekki lengur samfélagslega hættulegur sjúkdómur. Smitum hefur fjölgað hratt þar í landi að undanförnu og á mánudag lýsti forsætisráðherrann Mette Frederiksen því yfir að kórónaveiran yrði aftur skilgreind sem samfélagslega hættulegur sjúkdómur.