Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Fyrsta banaslysið á rafskútu

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Banaslys varð norðan við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Sæbrautar í Reykjavík um klukkan átta í morgun þegar rafmagnshlaupahjól og létt bifhjól skullu saman. Sá sem var á rafskútunni lést en hinn er alvarlega slasaður á sjúkrahúsi. Báðir voru með hjálm. Annar er á sextugsaldri en hinn á fimmtugsaldri.

Guðbrandur Sigurðsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir ekki fullvíst hvort hjólin hafi verið á reiðhjólastíg eða göngustíg. Annar maðurinn hafi verið á léttbifhjóli sem talið er að geti náð 45 kílómetra hámarkshraða. Ef rétt reynist hefði það átt að vera á götunni. „Það er til rannsóknar og skoðunar og bæði hjólin því að rafhlaupahjól á að vera innsiglað við 25 kílómetra hraða og má ekki komast hraðar en við höfum sögur og dæmi og tilkynningar til lögreglu um að rafhlaupahjól samkvæmt framleiðenda komist allt að 80 kílómetra hraða þegar búið er að rjúfa innsigli, og þau eru af mismunandi stærðum og gerðum. Og þar af leiðandi gefur auga leið að 25 er mikill hraði á þessum hjólum, hvað þá þegar það er orðið meira á göngustígum, hjólastígum eða göngugötum innan um annað fólk, það gefur auga leið að hraðinn má ekki vera meiri en 25, annað er bara stórhættulegt, öðrum og þeim sjálfum,“ segir Guðbrandur. 

Guðbrandur segir rafskúturnar frábæran ferðamáta en það þurfi að fara varlega. „Við höfum reyndar í töluvert langan tíma verið með talsvert af slysum og slysförum en sem betur fer ekki mjög alvarleg slys en þó eitthvað um andlitsmeiðsl og beinbrot en það er rétt, þetta er fyrsta banaslysið,“ segir Guðbrandur.