Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Telur að Þjóðkirkjan geti byggt upp tapað traust

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Jón Tómas Einarsson
Traust til Þjóðkirkjunnar hefur dregist verulega saman síðustu áratugi og aldrei hafa færri verið skráðir í Þjóðkirkjuna. Sólveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum, segist trúa því að hægt sé að byggja upp traust til kirkjunnar á ný. Til þess þurfi betri kynningu á starfi kirkjunnar. Sólveig Lára er bjartsýn á að fólk muni sækja í það sem þar er í boði.

Í nýjum Þjóðarpúlsi Gallups segist þriðjungur landsmanna treysta þjóðkirkjunni og aðeins um fimmtán prósent sögðust treysta Agnesi M Sigurðardóttur biskupi.

„Ég held að lykillinn að því að byggja upp traust sé betri kynningarstarfsemi, reyna að koma á framfæri við sem flesta fjölmiðla öllu því góða starfi sem kirkjan er að vinna,“ segir Sólveig Lára.

Íhaldsöm öfl streitist á móti breytingum

Sólveig Lára segir að kirkjan hafi sannarlega verið sein að tileinka sér ákveðnar samfélagsbreytingar og að íhaldssöm öfl innan kirkjunnar takist oft á við þá sem vilji ráðast í breytingar.

Hver heldur þú að hafi betur á Kirkjuþinginu? Þeir sem vilja breytingar eða hinir íhaldssömu?

„Það fer eftir því bara hvernig þú metur það en nú verður sem sagt kosið til nýs kirkjuþings á nýju ári. Þannig það er bara spennandi að sjá þær breytingar,“ sagði Sólveig Lára í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.