Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Skemmtilegar stelpur í baráttu um brauðið

Mynd: Birta / Birta

Skemmtilegar stelpur í baráttu um brauðið

09.11.2021 - 10:05

Höfundar

Alvara lífsins og léttleiki takast á í barna- og fjölskyldumyndinni Birtu. „Helsta rósin í hnappagat leikstjórans og myndarinnar í heild er frammistaða ungu leikkvennanna,“ segir Gunnar Ragnarsson gagnrýnandi.

Gunnar Ragnarsson skrifar:

Birta er ný íslensk barna- og fjölskyldumynd í leikstjórn Braga Þórs Hinrikssonar, sem frumsýnd var nýlega. Hún verður einnig jólamynd Sjónvarps Símans, en Síminn er meðframleiðandi.

Undanfarin tíu ár eða svo hefur leikstjórinn Bragi Þór Hinriksson verið einna atkvæðamestur íslenskra kvikmyndagerðarmanna á sviði barna- og fjölskyldumynda. Hann stóð á bak við Algjör Sveppi-myndirnar (fjórar talsins) og nú síðast kvikmyndina Víti í Vestmannaeyjum (2018) sem byggð er á knattspyrnubarnabók Gunnars Helgasonar.

Í Algjörum Sveppa leika fullorðnir aðalleikarar, Sveppi, Villi og Gói, litla drengi sem lenda í ýmsum ævintýrum, en megineinkenni myndanna var að vitna sí og æ í kvikmyndasöguna með notkun á tónlist og sviðsetningu þekktra atriða. Í Birtu eru áhorfendur hins vegar komnir á allt aðrar slóðir. Söguheimurinn styðst mestmegnis við félagslegt raunsæi og sögð er saga Birtu, 11 ára stúlku, sem býr í blokk í Bakkahverfinu í Breiðholti ásamt móður og yngri systur og æfir handbolta.

Raunsæislegur söguheimur og fátækt

Myndin hefst á yfirlitsdrónaskoti af skólalóð þar sem Birta og bekkjarfélagar hennar leika sér í brennó í frímínútum. Í framhaldinu sést Birta á handboltaæfingu, þar sem hún spilar skólaus og þjálfari, leikinn af Árna Páli Árnasyni (einnig þekktur sem Herra Hnetusmjör), mælist til þess að móðir hennar borgi æfingagjöldin. Í ljós kemur að móðirin hefur hvorki efni á nýjum skóm né æfingagjöldum.

Leik- og söngkonan vinsæla Salka Sól fer með hlutverk mömmunnar sem er hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum. Hún vinnur myrkranna á milli og leggur of mikla ábyrgð á herðar eldri dótturinnar sem þarf að sjá um yngri systur sína í miklum mæli og fórna eigin sakleysi um leið. Pabbi stúlknanna býr í Svíþjóð og heyrir tvívegis í þeim í myndsímtölum. Hann splæsir meðal annars í nýja handboltaskó handa Birtu. Birta heyrir síðan mömmu sína segja í símann að þær eigi ekki peninga til að halda jólin. Þá ákveður söguhetjan að taka málin í eigin hendur og safna 100 þúsund krónum fyrir heimilið til þess að gera hátíðahöldin möguleg.

Ungar leikkonur standa upp úr

Hugmyndin á bak við söguna er augljóslega að bregða upp mynd af íslenskum samtíma þar sem hefðbundnar kvennastéttir strita fyrir of lágu kaupi til að standast baráttuna um brauðið og kröfur neyslusamfélagsins. Uppleggið og framsetningin framan af er ögn nöturleg fyrir barnamynd, og klingja viðvörunarbjöllur í framkomu móðurinnar við dótturina. Senur og persónur eru full eintóna. Umfram allt eru þær fátækar frekar en að aðstæðurnar séu aðeins einn þáttur í karaktersköpuninni. Þetta er vandmeðfarið og predikunartónn óæskilegur en í raunsæishefðinni er auðvitað lykilatriði að maður trúi á persónurnar.

Alvarlegum tóni er þó ekki haldið út myndina, sem er bæði kostur og galli, þar sem það dregur fram ójafnt eðli handritsins en þó er kærkomið þegar léttleikinn ræður för. Handritshöfundurinn, fjölmiðlakonan Helga Arnardóttir, þreytir hér frumraun sína á þessum vettvangi og er eðlilegt að verkið sé ekki hnökralaust. Styrkur leikstjórans liggur heldur ekki í dramatík né smíð raunsæisheims en handbragð hans hentar best fyrir kvikar senur og myndfléttukafla þegar hin uppátækjasama Birta safnar dósum og selur fisk í blokkinni.

Helsta rósin í hnappagat leikstjórans og myndarinnar í heild er frammistaða ungu leikkvennanna, Kristínar Erlu Pétursdóttur í hlutverki Birtu og Margrétar Júlíu Reynisdóttur, yngri systurinnar, en þær hafa báðar hlotið verðlaun fyrir leik sinn á barnakvikmyndahátíðum erlendis. Hlutverk Margrétar Júlíu er mestmegnis aukahlutverk en þegar líður á festir hún sig í sessi sem senuþjófur myndarinnar. Hún er einfaldlega náttúruleg, skemmtileg og fyndin týpa, og það skilar sér á tjaldið. Leikur stelpnanna er meginástæðan fyrir fjölskyldur að sjá myndina, en samband þeirra við eldri hjón í blokkinni er einkar skemmtilegt. Að sjálfsmeðvituðum hætti Braga Þórs vísar Birta til Emils og Skunda en líklega hefði léttleikandi saga í anda Stikkfrí (1997) dregið betur fram helstu styrkleika teymisins, frekar en ljóðræn dramatík Skýjahallarinnar (1994).