Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Ræða hluthafafund vegna sölunnar á Mílu

08.11.2021 - 19:41
Hús verslunarinnar
 Mynd: RÚV
Stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna tilkynnti á fundi fulltrúaráðs Lífeyrissjóðs verzlunarmanna í kvöld að hann myndi taka það upp í stjórn sjóðsins hvort fara ætti fram á hluthafafund í Símanum vegna sölunnar á Mílu. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, óttast að langtímahagsmunum Símans og viðskiptavinum fyrirtækisins sé fórnað fyrir skammtímahagsmuni hluthafa.

Jón Ólafur Halldórsson, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, tilkynnti á fulltrúaráðsfundi sjóðsins í kvöld að hann myndi setja málið á dagskrá í stjórn. Þar verður rætt hvort ástæða sé til að óska eftir hluthafafundi í Símanum til að ræða málið. Þetta gerði hann í umræðu um tillögu Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, um að stjórn lífeyrissjóðsins beitti sér fyrir hluthafafundi í Símanum. Því kom ekki til þess að greiða þyrfti atkvæði um tillöguna.

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun Mílu sem var birt í dag hafa 42,3 prósent fremur eða mjög miklar áhyggjur af því að Míla hafi verið seld erlendum aðilum. 30,5 prósent hafa fremur eða mjög litlar eða jafnvel engar áhyggjur af því.

Ragnar Þór segir að salan á Mílu sé það stórt mál að hana verði í það minnsta að ræða á hluthafafundi. Sérstaklega þar sem með viðskiptunum skuldbindi Síminn sig til viðskipta við Mílu í 20 ár. „Það er þess vegna sem ég er að kalla eftir því að eigendur félagsins, sem eru að stærstum hluta lífeyrissjóðirnir, kalli eftir því að boðað verði til hluthafafundar þar sem málið verði rædd í þaula og ósvöruðum spurningum svarað á þeim vettvangi.“

Það er ánægjulegt að stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna ræðir málið, segir Ragnar Þór. Hann segir gríðarlega mikilvægt að allt sé gert rétt og faglega. Nú sé ekki nógu mikið vitað um rekstrarleg og samkeppnisleg áhrif viðskiptanna. Þá sé ljóst að fyrirtækið sækir ekki arðsemi vegna viðskiptanna annað en til  íslenskra viðskiptavina sinna. 

Ragnar Þór óttast áhrifin á félagsmenn VR sem eru viðskiptavinir Mílu og lífeyrissjóðanna sem eigenda Símans. Hann óttast að langtímahagsmunum fyrirtækisins sé fórnað fyrir skammtímahagsmuni hluthafa. „Viðskiptalífið hefur oftar en ekki virkað þannig að langtímahagsmunir eru látnir víkja fyrir skammtímasjónarmiðum. Ég hef líka áhyggjur af því að minni hluthafar, sem virðast vera ráðandi innan félagsins, eins og Stoðir séu að taka þessar ákvarðanir án þess að það liggir fyrir nógu góðar upplýsingar um hvaða langtímaáhrif þetta hafi á Símann og viðskiptavini fyrirtækisins.“