Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Færeyingar bóka skíðaferðir til Akureyrar

08.11.2021 - 14:39
Mynd með færslu
 Mynd: Hlíðarfjall.is - RÚV
Á meðan Íslendingar bóka skíðaferðir til Alpanna stefna Færeyingar á skíðaferðir til Akureyrar. Í febrúar á næsta ári verður flogið beint á milli Akureyrar og Færeyja með það fyrir augum að Færeyingar komist á skíði í Hlíðarfjalli.

Flugin fullbókuð frá Færeyjum

Færeyska ferðaskrifstofan Tur mun bjóða upp á alla vega tvö bein flug á milli Færeyja og Akureyrar í febrúar. Ferðaskrifstofan er í samstarfi við fréttamiðilinn Kaffid.is varðandi bókanir frá Íslandi. Jónatan Friðriksson, íslenskur tengiliður ferðaskrifstofunnar segir þetta vera Færeyingar sem eru að koma í skíðaferðir til Akureyrar sem noti flugin mest. „Þeir eru síðan að nota flugið til baka með því bjóða Akureyringum ódýrt flug til baka. Þeir eru búnir að gera þetta tvisvar eða þrisvar áður en það var ekkert í fyrra út af covid.“

Í Færeyjum eru aðstæður til skíðaiðkunar ekki góðar, aðallega vegna snjóleysis. Færeyingarnir virðast áfjáðir í að koma til Akureyrar og skíða í Hlíðarfjalli því búið er að fylla vélarnar tvær frá Færeyjum til Íslands og verið er að íhuga að setja á þriðju ferðina.  

Minni eftirspurn frá Akureyringum

Það felst þó alltaf ákveðin áhætta í að treysta því að íslensku skíðasvæðin séu opin. Jónatan segir Færeyingana tilbúinn til að taka þá áhættu. „Þetta er náttúrulega skásti tíminn til að taka sénsins á því, í febrúar. Þá er líklegast að það sé kominn snjór og ekki farinn enn þá, ætli þeir séu ekki að reyna að stóla á það.“

Jónatan segir Akureyringa ekki alveg eins áhugasama um að fara til Færeyja eins og þeir til okkar. Einhverjar bókanir og fyrirspurnir hafi þó borist og er áhuginn tvímælalaust meiri en síðustu ár.