Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Dýralæknafélagið á móti banni á lausagöngu katta

08.11.2021 - 08:19
Mynd með færslu
 Mynd: EVG photos - Pexels
Dýralæknafélag Íslands hefur ályktað um fyrirhugað bann Akureyrarbæjar á lausagöngu katta. Formaður félagsins segir að það geti haft mjög alvarleg áhrif á heilsu katta að vera lokaðir inni.

Vegið að eðlislegu atferli kattarins

Bára Eyfjörð Heimisdóttir, formaður Dýralæknafélags Íslands, sendi fyrir hönd félagsins frá sér ályktun þar sem hörmuð er sú ákvörðun bæjarfulltrúa Akureyrarbæjar um að banna lausagöngu katta.

Að mati Dýralæknafélags Íslands er ákvörðun Akureyrarbæjar illa undirbúin. „Það virðist ekki hafa verið lögð mikil vinna í að skoða þessa ákvörðun. Þetta kemur mjög illa við marga kattaeigendur og í raun og veru er verið að vega að eðlislegu atferli kattarins og velferð hans,“ segir Bára.

Getur haft í för með sér ýmsa sjúkdóma

Bára segir réttara ef Akureyrarbær myndi fremur einbeita sér að þeim samþykktum bæjarins sem þegar eru í gildi, eins og að taka á villikattastofninum, láta fylgja örmerkingum katta betur eftir og fleira í þeim dúr. 

„Köttur sem er vanur því að vera frjáls ferða sinna, hann getur átt mjög erfitt með að venjast þessu. Það eru ýmsir sjúkdómar sem þetta getur leitt af sér, bæði hegðunarvandamál og streitu og sjúkdóma. Eins og t.d. gætum við farið að sjá aukningu í þvagfærum vegna streitu, sem gæti orðið ansi algengt hjá köttum. Offituvandamál, sykursýki og annað. Þannig að það er mjög margt sem þetta getur leitt af sér,“ segir Bára.

Áhrif á fuglastofninn ofmetin

Bára segir að með því að setja bjöllur, stóra kraga og að takmarka útivist katta á varptíma sé hægt að minnka veiðigetu dýrana. Áhrif veiða heimiliskatta á fuglastofna séu þó e.t.v. ofmetin. „Það eru rannsóknir bæði frá Bretlandi og Bandaríkjunum þar sem engin fylgni er með því að lausagöngubann hafi einhver áhrif á fuglastofninn.“