Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Allt bendir til að hjarðónæmi geti náðst

08.11.2021 - 20:09
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir vonir standa til þess að hægt verði að búa til hjarðónæmi með örvunarskammti bólusetningar gegn covid. Aðeins tíu hafa smitast af covid af þeim 30 þúsund sem hafa fengið örvunarskammt hérlendis. Til samanburðar hafa um 4.500 smitast af þeim 270 til 280 þúsundum sem hafa fengið tvo skammta. Þórólfur segir það til marks um hversu miklu meiri virkni þrír skammtar veita en tveir.

Þetta kom fram í Kastljósi í kvöld.

Þórólfur rifjaði upp að frá upphafi hafi verið talað um mikilvægi þess að ná upp hjarðónæmi. Vonir hafi verið bundnar við að það tækist þegar tveggja skammta bólusetning kláraðist í byrjun sumars. Það hafi byggt á rannsóknum á fyrri afbrigðum en staðan breyttist með Delta-afbrigðinu.

„Núna hefur það komið í ljós að tvær sprautur eru ekki alveg nógu góðar,“ sagði Þórólfur. „Síðan hefur það gerst að til dæmis í Ísrael kemur það í ljós að þriðji skammturinn sem er gefinn fimm til sex mánuðum eftir skammt tvö virkar bara mjög vel, er 90 prósent virkur umfram skammt tvö til að koma í veg fyrir smit og dreifingu smits og alvarleg veikindi.“

„Mér finnst allt benda til þess að við getum bundið vonir við það að skammtur númer þrjú muni búa til hjarðónæmi hérna og stoppa þetta allavega verulega af,“ sagði Þórólfur. „Við erum að gera þetta eins hratt og við getum. Við erum búin að raða fólki upp í hópa eftir því hvenær það getur fengið örvunarskammtinn eftir fimm mánuði. Það er í lok þessa árs og í byrjun þess næsta sem það ætti að takast. Við bindum vonir við að fólk muni mæta vegna þess að örvunarbólusetningin verndar ekki bara einstaklinginn sjálfan fyrir smiti og alvarlegum veikindum heldur líka fyrir samfélagslegu smiti. Þannig ættum við að geta komist út úr covid ef allt virkir eins og það kannski virðist núna.“ Þórólfur tók þó fram að margt ætti eftir að koma í ljós.

Þórólfur lagði áherslu á að gæta þyrfti vel að því að faraldurinn berist sem minnst inn um landamærin. Staðan væri þó sú að fjórða hvert smit sem greindist í síðasta mánuði hefði verið af völdum nýrra afbrigða sem ekki er hægt að tengja landamærunum. Þetta sagði hann til marks um að fólk sem fór ekki í próf á landamærunum hefði borið ný afbrigði inn í landið og þau smitast út í samfélagið. „Ef við opnum meira á það þá fáum við bara meiri útbreiðslu.“

Þórólfur var í lokin spurður hvort að til þess gæti komið að gripið yrði til harðari ráðstafana. „Ef spítalinn er að komast í algjört óefni höfum við ekkert að bjóða annað en að herða meira.“