Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Musk spyr fylgjendur sína ráða um sölu hlutafjár

07.11.2021 - 00:27
epa06233680 CEO of Tesla, Elon Musk delivers a presentation at the International Astronautical Congress (IAC) in Adelaide, South Australia, Australia, 29 September 2017.  EPA-EFE/MORGAN SETTE  AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA
Stofnandi Tesla og SpaceX, frumkvöðullinn og auðkýfingurinn Elon Musk spurði fylgjendur sína í dag á Twitter hvort hyggilegt væri af honum að selja tíu prósent hlutafjár síns í bílaframleiðslunni.

Ástæða könnunar auðkýfingsins er söðg sú tillaga Demókrata á Bandaríkjaþingi að auka skattgreiðslur hinna ofurríku með áherslu á hlutafjáreign þeirra.

Skattur af hlutafé er almennt ekki greiddur nema við sölu þeirra. Musk skrifaði á Twitter að mikið væri gert með að óinnleystur hagnaður væri nýttur til skattaundanskota.

Musk segist hvergi þiggja laun né kaupauka og því geti hann aðeins greitt skatta með því að selja hlutabréf.

Því spurði hann allar 62 milljónir fylgjendur sína á miðlinum hvort hann ætti að selja tíu prósenta hlut í Tesla og hét því að hlíta niðurstöðunni hver sem hún yrði. Klukkan ellefu í kvöld höfðu 53% mælt með sölu hlutafjárins.

Verðmæti hlutafjár Musks í Tesla er metið á ríflega 208 milljarða Bandaríkjadala, samkvæmt Bloomberg. Musk er einhver ríkasti maður heims ef ekki sá ríkasti en auður hans er metinn á um 338 milljarði dala.