
Löfven hættir í byrjun vikunnar
Löfven boðaði óvænt í lok sumars að hann myndi segja af sér embætti að loknu flokksþingi Jafnaðarmannaflokksins en þar skyldi eftirmaður hans kjörinn.
Flokksþingið fór fram um helgina og var Magdalena Andersson fjármálaráðherra kjörin formaður mótatkvæðalaust. Áætlað er að hún taki við sem forsætisráðherra. Til þess þarf hún þó að standast atkvæðagreiðslu í þinginu, sem getur aðeins farið fram þegar Löfven hefur formlega sagt af sér.
Ríkisstjórn jafnaðarmanna og græningja treystir á stuðning Miðflokksins og Vinstriflokksins og hafa flokkarnir tveir gert sig líklega til að leggja fram kröfur á ríkisstjórnina til að veita nýjum forsætisráðherra stuðning.
Viðræður eru nú í gangi milli flokkanna um málefni skógræktar og strandverndar. Vill Miðflokkurinn styrkja rétt landeigenda til að nýta skóga og slaka á kröfum um strandvernd, þvert á stefnu græningja.