Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Heitir aðstoð við rannsókn árásarinnar á Kadheimi

07.11.2021 - 23:24
epa09567890 US President Joe Biden speaks to the media about the passage of the 1.2 trillion US dollar bipartisan infrastructure bill in the State Dining Room of the White House in Washington, DC, USA, 06 November 2021. Lawmakers have yet to vote on the president's 1.75 trillion US dollar social spending and climate package.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Joe Biden Bandaríkjaforseti fordæmdi í dag atlöguna að Mustafa al-Kadhemi forsætisráðherra Íraks. Biden hét aðstoð bandarískra öryggissveita við að hafa uppi á hinum seku.

Biden kvaðst fagna því að al-Khadeimi slapp ómeiddur og hrósaði honum fyrir stjórnvisku.

Hana hefði hann sýnt með því að hvetja íbúa landsins til að halda ró sinni eftir árásina sem sé mikilvægur leiðarsteinn í átt til þess lýðræðis sem Írakar eigi sannarlega skilið.

Biden lýsti árásinni sem hryðjuverki og forseti Íraks segir hana herhlaup að grunnstoðum ríkisins. Ráðist var að embættisbústað al-Kadhemis í Bagdad með dróna fylltum sprengiefni í rauðabítið á sunnudagsmorgni.

Litið er á árásina sem tilræði við forsætisráðherrann en róstur hafa verið í landinu allt frá kosningum 10. október síðastliðinn en endanlegar niðurstöður þeirra liggja ekki enn fyrir. Enginn hefur enn lýst ábyrgð á árásinni á hendur sér.