Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gefa ekkert upp um efni stjórnarsáttmálans strax

07.11.2021 - 12:57
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Formenn ríkisstjórnarflokkanna halda áfram stjórnarmyndunarviðræðum í dag. Fjármálaráðherra segir að það sé ekki tímabært að upplýsa um efni stjórnarsáttmálans og að skipting ráðuneyta hafi enn ekki verið rædd. 

Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson ætla að hittast í ráðherrabústaðnum strax eftir hádegið í dag og ræða myndun nýrrar ríkisstjórnar. Óvíst er hvenær hún verður kynnt, en þau hafa sagt að fyrst þurfi undirbúningsnefnd um rannsókn kjörbréfa að ljúka störfum. Nú stefnir í að nefndin skili ekki niðurstöðum sínum fyrr en í fyrsta lagi eftir þessa viku. Þá verða sjö vikur liðnar frá kosningum, án þess að þing komi saman.

Formennirnir hafa lítið viljað segja um viðræðurnar, annað en að þær gangi vel og að mögulega verði sett á fót nýtt ráðuneyti eða verkefni færð milli ráðuneyta. 

Bjarni Benediktsson segir ekki tímabært að gefa neitt upp um stjórnarsáttmálann. „Ég held að við ætlum að geyma okkur það að tala um stjórnarsáttmálann þar til við höfum klárað hann.“  Hann segir spennandi tíma framundan. „Við sjáum ofboðslega mikla möguleika til að gera betur svo víða og styðja við jákvæða þróun. Hér hefur störfum verið að fjölga að nýju í hagkerfinu sem er ofboðslega mikið hagsmunamál fyrir heimilin og við viljum auðvitað sjá efnahagslegan stöðugleika, það njóta allir góðs af því, við sjáum mikil tækifæri í orkuskiptunum og svo framvegis, þannig að við erum meðal annars að ræða það hvernig við látum rætast úr öllum möguleikum landsmanna,“ segir Bjarni.  

Í aðdraganda kosninga lýsti Bjarni yfir áhuga á því að heilbrigðisráðuneytið yrði undir stjórn Sjálfstæðismanna. En skyldi hann sjálfur ætla að taka að sér það verkefni? „Ég ætla bara ekkert að tala neitt um verkaskiptingu vegna þess að við erum mest lítið farin að ræða það sjálf okkar í milli,“ segir Bjarni.