Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Erfitt að fá starfsleyfi með útlenska sálfræðimenntun

07.11.2021 - 20:15
Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Sálfræðingar menntaðir í útlöndum eiga margir erfitt með fá starfsleyfi hér á landi. Doktor í klínískri sálfræði er efins um að leggja í þá vegferð því óljóst sé hvaða kröfur þarf að uppfylla - á sama tíma og þeir sem hljóta menntun á Íslandi fá undanþágu frá starfsnámi.

Undanfarin ár hefur sálfræðinemum á Íslandi verið veitt undanþága frá starfsnámi til að fá starfsleyfi, því starfsnám er ekki í boði. Á sama tíma reynist það mikil þrautaganga fyrir sálfræðinga með menntun, starfsnám og jafnvel starfsreynslu frá útlöndum að fá starfsleyfi hér á landi. 

„Bara erfitt að komast í gegnum þetta ferli og margir sem standa í stappi í mörg ár eða leggja hreinlega ekki í ferlið,“ segir Ester Ösp Sigurðardóttir, doktor í klínískri sálfræði.

Það tók sálfræðing sem fréttastofa ræddi 8-9 ár að fá starfsleyfi hér á landi. Hún þurfti að láta þýða hundruð blaðsíðna sem kostaði mörg hundruð þúsund. Á endanum fékk hún leyfið. Annar sálfræðingur með doktorspróf frá Bandaríkjunum, segir starfsleyfi þaðan engu breyta. „Ég þarf eiginlega að gera það upp við sjálfa mig hvort þetta ferli sé þess virði að leggja í það eftir hryllingssögurnar hjá fólki þar sem menntunin er véfengd og reynsla er véfengd og svo þetta nýjast útspil að minnka kröfurnar sem eru gerðar hér á Íslandi og taka svo ekki tillit til okkar sem erum kannski sprenglærð og með mjög marga starfsreynslutíma og svona annað sjónarhorn kannski, aðra áfanga og öðruvísi vinnu. Ég vann með unglingum sem eru í fangelsiskerfinu í Bandaríkjunum og ég held að við séum ekkert mörg með þá reynslu heldur þannig að það er svona svolítið leiðinlegt að vera búin að fara í gengum allt þetta ferli. Heyra í grunnnáminu, farið út ef þið hafið tækifæri á, það er svo gott að fá fólk með allskonar menntun og reynslu og svo fær maður eiginlega þessa tusku í andlitið þegar maður ætlar að koma heim og gefa aðeins til baka,“ segir Ester.

Ester hefur hún sótt um hjá alþjóðlegri stofnun sem tekur bandaríska starfsleyfið gilt - en næg eftirspurn virðist vera eftir sálfræðingum. „Það er víða verið að leita að sálfræðingum og það hefur aukist. Í auknum mæli eru stofnanir og sjálfstætt starfandi að leita eftir sálfræðingum. Biðlistar aukast og lengjast þannig að það er alls staðar verið að kalla eftir sálfræðiþjónustu og sálfræðingum í vinnu en á sumum stöðum gengur illa að ráða,“ segir Tryggvi Guðjón Ingason, formaður Sálfræðingafélags Íslands.