Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Nöturleg örlög afganskra sona

Mynd: Caroline Andersson Renaud / Bonnier/Norden

Nöturleg örlög afganskra sona

05.11.2021 - 15:10

Höfundar

Sænski rithöfundurinn Elin Person fékk barna- og unglingabókaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir frumraun sína í vikunni. Bókin ber engin merki byrjendaverks segir Dagný Kristjánsdóttir bókmenntafræðingur.

Elin Persson er sænskur rithöfundur fædd 1992. Hún er félagsmannfræðingur að mennt og bók hennar Afgönsku synirnir hlaut barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs í ár.

Bókin er byggð á lífsreynslu hennar sjálfar. Hún er hennar fyrsta skáldsaga og hlaut mikið lof gagnrýnenda í Svíþjóð. Sögumaðurinn er sænsk stúlka sem heitir Rebekka. Hún ræður sig á flóttamannaheimili yfir sumartímann. Hún er bara 19 ára og heldur að hún verði kannski spurð um starfsmenntun, en svo reynist ekki. Hún fær aðeins tilmæli um að fara að reglum. Það gerir hún, að minnsta kosti framan af. Á þessu flótamannaheimili, sem er eitt af mörgum, eru vistaðir þeir sem bíða eftir að fá annað hvort landvistarleyfi eða brottvísun. Þeir eru sem sagt ennþá ólöglegir í landinu utan heimilis síns en innan þess er hugsað vel um þá. Drengirnir þrír sem Rebekka ber ábyrgð á og hjálpar með hvaðeina eru 14-17 ára gamlir, eða svo segja þeir. Þar með eru þeir börn sem eiga rétt á landvistarleyfi í Svíþjóð. Sá yngsti er mjög illa farinn eftir flóttann til Svíþjóðar og ofurviðkvæmur í fyrstu. Enginn þeirra vill tala um flóttann frá Afganistan, en einn þeirra segir Rebekku að smyglarar sem fóru með hann til Evrópu hafi látið hann gera hluti sem hann muni aldrei geta sagt neinum frá. Þeir óttast Talíbana mjög og fá martraðir þar sem þeim finnst þeir vera að taka sig fasta og tala um það sem vísan dauða að snúa heim aftur. Allir bera þeir þessa reynslu með sér og brýst á stundum út í ófyrirsjáanlegum viðbrögðum. Allir þrír eru á lyfjum, ýmist við svefntruflunum, geðdeyfð, lystarleysi, þráhyggju eða kvíða. 

Samband Rebekku og strákanna er aðalefni bókarinnar, segir Dagný Kristjánsdóttir, sem fjallaði um bókina í Orðum um bækur á Rás 1. 

„Örlög afgönsku sonanna verða enn nöturlegri af því við höfum kynnst þeim, draumum þeirra og þrá, í gegnum hófstillta og lágmælta samlíðan sögumannsins Rebekku, sem þeir treysta og elska. Það eru liðin tíu ár síðan atburðirnir sem bókin segir frá gerðust og þeir sem hafa fylgst með þróun mála í Afganistan síðustu mánuði vita að ástandið þar hefur versnað margfaldlega. Margir flóttamenn hafa gengið hin þungu spor afgönsku strákanna á þessum árum og nú meira en nokkru sinni.

Afgönsku synirnir er fyrsta skáldsaga Elin Persson en ber engin merki byrjendabókar. Hún er þétt og engu ofaukið í textanum sem er fullur af samlíðan en laus við tilfinningasemi. Og langi einhvern til að líta sér nær er meðferð flóttamanna ekki til neinnar fyrirmyndar hér á Íslandi. Margar brottvísanir þeirra héðan, eftir langa bið, enda líka í harmleikjum.“

 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Til hamingju Niviaq