Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fundu tvöþúsund ára gamla gröf í höfuðborg Perú

05.11.2021 - 00:34
Mynd með færslu
 Mynd: Flickr
Starfsmenn við lagningu gasleiðslu í Líma höfuðborg Suður-Ameríkuríkisins Perú fundu óvænt fornan grafreit neðanjarðar. Slíkar uppgötvanir eru ekki óvenjulegar í landinu og mörg stórfyrirtæki hafa því fornleifafræðinga í starfsliði sínu.

Talið er að gröfin sem geymir líkamsleifar minnst sex einstaklinga sé um tvö þúsund ára gömul. Hin látnu, bæði fullorðin og börn, liggja í leirkistum og eru talin hafa tilheyrt ættbálknum Blanco sobre Rojo.

Ættbálkurinn átti aðsetur í dölunum umhverfis árnar þrjár sem nú renna um Líma-borg. Cecilia Camargo sem fer fyrir fornleifafræðideild kólumbíska jarðgassfyrirtækisins Calidda segir að þegar hafi fundist um fjörutíu leirmunir af ýmsu tagi sem ýti undir þá kenningu að gröfin tilheyri ættbálknum.

Öll fyrirtæki sem af einhverjum ástæðum þurfa að grafa í jörð í Perú hafa á að skipa fornleifafræðingum enda fremur algengt að fornleifar finnist neðanjarðar í landinu.