Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Líkur að Andersson verði fyrst kvenna forsætisráðherra

Magdalena Andersson, fjármálaráðherra Svíþjóðar, á fundi fjármálaráðherra Evrópusambandsríkja í Lúxemborg.
 Mynd: EPA
Allt stefnir í það að Magdalena Andersson geti orðið fyrsti kvenkyns forsætisráðherra Svíþjóðar. Formannskjör verður í Jafnaðarmannaflokknum í dag, fimmtudag og fjármálaráðherrann Andersson er ein í framboði.

Stefan Löfven, formaður flokksins og forsætisráðherra tilkynnti fyrirhugaða afsögn sína í ágúst síðastliðnum. Ekki liggur fyrir hvenær hann stígur endanlega til hliðar en um leið og það gerist greiðir þingið atkvæði um arftaka hans.

Jafnaðarmenn leiða nú minnihlutastjórn í Svíþjóð ásamt Græningjum, sem varin er af Miðflokknum og Vinstriflokknum. Stjórnin hefur staðið heldur tæpt og í sumar samþykkti þingið með fulltingi Vinstriflokksins vantraust á Löfven. Hann var þó síðar endurkjörinn forsætisráðherra. 

Næstu þingkosningar eru boðaðar í Svíþjóð haustið 2022 og viðamesta verk Andersson verður að tryggja flokki sínum nægilegt fylgi til að halda völdum. Kannanir sýna þó að fylgi hans er með því lægsta sem um getur.

Magdalena Andersson er fædd í háskólabænum Uppsölum árið í janúar árið 1967 og gekk til liðs við ungliðadeild Jafnaðarmannaflokksins 16 ára að aldri árið 1983.

Hún hefur meistaragráðu í hagfræði og varð aðstoðarmaður Goran Persson þáverandi forsætisráðherra árið 1996. Hún var kjörin á þing 2014 og hefur síðan verið fjármálaráðherra í ríkisstjórnum Löfvens.