Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Íhuga að færa Landspítalann yfir á hættustig

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - Rúv
Viðbragðsstjórn og farsóttarnefnd Landspítalans íhuga að færa viðbúnaðarstig spítalans yfir á hættustig. Skólastarf á Akranesi hefur legið niðri vegna fjölda smita í bænum.

Hundrað fjörutíu og fjórir greindust með kórónuveirusmit innanlands í gær. Ekki hafa fleiri greinst á einum degi síðan í byrjun ágústmánaðar. Rúmlega hundrað af þeim sem greindust voru ekki í sóttkví. Eitt þúsund og fimmtán eru nú í einangrun á landinu öllu og 1.129 í sóttkví.

Alls liggja 17 sjúklingar með COVID-19 á Landspítalanum samkvæmt Covid.is og þar af fimm á gjörgæslu. Viðbragðsstjórn og farsóttarnefnd Landspítalans íhuga að að færa viðbúnaðarstig spítalans yfir á hættustig.

 

Runólfur Pálsson yfirlæknir á Landspítalanum segir að spítalinn sé nánast kominn að þolmörkum.

„Það er búið að vera gríðarlegt álag á spítalanum undanfarnar vikur sem birtist í miklum fjölda einstaklinga á bráðamóttökunni sem fær ekki legurými. Og svo þegar bætist við þessi aukni fjöldi einstaklinga með COVID-19 að þá verður þetta mjög snúið. Í rauninni er  ekkert svigrúm til þess að mæta enn frekari aukningu eins og staðan er í dag,“ segir Runólfur.

Þetta aukna álag geti að óbreyttu haft veruleg áhrif á starfsemi spítalans.

„Þetta er náttúrulega mjög bagalegt vegna þess að í fyrri bylgjum og sérstaklega í fyrstu bylgju þá jukust biðlistar verulega vegna þess að það þurfti að fresta aðgerðum. En ef að spítalinn getur ekki sinnt bráðveikum einstaklingum í brýnni þörf þá verður eitthvað undan að láta,“ segir Runólfur.